Bandarísk kona talin hafa myrt barn sitt í örbylgjuofni

Kona í Bandaríkjunum hefur verið handtekin grunuð um að hafa myrt nýfætt barn sitt með því að setja það í örbylgjuofn. Barnið var mánaðargamalt þegar það lést fyrir um ári. Það var með innvortis brunasár, en engin sár utan á líkamanum, að því er skrifstofa réttarlæknis í Montgomery í Ohio greindi frá. Móðir barnsins neitar þessum ásökunum.

Barnið var látið þegar móðir þess kom með það á sjúkrahús í ágúst í fyrra. Hún var hneppt í varðhald um tíma, en sleppt á meðan rannsókn málsins var fram haldið. Rannsóknin reyndist torveld þar sem „ekki liggja fyrir margar vísindarannsóknir og gögn um áhrif örbylgja á manneskjur“, sagði Ken Betz, réttarlæknir í Montgomery.

Móðir barnsins segir að kvöldið áður en hún kom með það á sjúkrahús hafi það verið skilið eitt eftir hjá barnfóstru um stund. Foreldrana hafi ekki grunað að neitt væri að fyrr en barnið fannst meðvitundarlaust morguninn eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert