Býður fjárstuðning til að andæva skýrslu IPCC

Hægrisinnuð hugveita í Bandaríkjunum býður vísindamönnum og hagfræðingum 10.000 dollara til að andæva skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem birt var í dag.

Í skýrslunni segir meðal annars að yfirgnæfandi líkur séu á því að hlýnun í andrúmsloftinu undanfarið sé af mannavöldum.

Breska blaðið Guardian segir að hugveitan, American Enterprise Institute (AEI), njóti fjárstuðnings frá olíurisanum ExxonMobil. Hafi AEI sent bréf til vísindamanna í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar og boðið greiðslu fyrir vísindagreinar þar sem lögð sé áhersla á gallana í skýrslu vísindanefndar SÞ (IPCC).

Þá mun AEI einnig hafa boðið aukagreiðslur og endurgreiðslu á ferðakostnaði.

Í bréfinu sem AEI sendi er sagt að skýrsla IPCC „gefi ekki færi á skynsamlegri gagnrýni og andófi og bjóði upp á allsherjarniðurstöður sem lítt séu studdar af vísindalegum greiningum“.

Talsmaður AEI staðfesti við Guardian að hugveitan hefði falast eftir því við vísindamenn að þeir skrifi vísindaritgerðir sem síðan yrðu settar saman í óháð mat á skýrslu IPCC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert