Bobby Fischer óánægður með framleiðslu íslenskrar heimildamyndar um sig

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. mbl.is

Stuðningsmannahópur skákmeistarans Bobby Fischer, sem heitir réttu nafni Robert James Fischer, hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Fischer sé óánægður með framleiðslu heimildarmyndar sem ber vinnuheitið „Vinur minn Bobby“. Að myndinni standa þeir Friðrik Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður og Kristinn Hrafnsson í samvinnu við Sæmund Pálsson og fleiri aðila, að því er segir í tilkynningunni.

Fram kemur í tilkynningu RJF-hópsins að Fischer hafi leitað til stuðningsmannahópsins og óskað eftir því að hópurinn veki sérstaka athygli á að „handrit og uppbygging umræddrar „heimildarmyndar“ með hann að viðfangsefni sé í miklu ósamræmi við það sem við hann hafi verið rætt á sínum tíma og brögð hafi verið í tafli,“ að því er segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur:

    Meginþema myndarinnar nú, sem mun bera vinnuheitið „Vinur minn Bobby“ sé að hans mati mjög andstætt þeim hugmyndum sem lagt var upp með árið 2005 varðandi gerð hugsanlegrar fréttamyndar fyrir íslenskt sjónvarp um skipulagt mannrán á honum að undirlagi Bandaríkjastjórnar og fangelsun í Japan, veitingu íslensks ríkisborgararéttar og lausn úr fangelsi.

    Af þessu tilefni vill stjórn RJF hópsins koma á framfæri að Fischer hefur aldrei undirritað neinn samning eða leyfi fyrir umræddum sjónvarpsþætti. Öll notkun eða sýning á efni sem tekið hefur verið upp af umræddum aðilum og snertir mál hans eða persónu er ósamþykkt.

    Ekkert slíkt efni má nota, sjónvarpa eða sýna með neinum hætti án hans leyfis.

    Af þessum ástæðum er það í mikilli óþökk hans að innlendir og erlendir aðilar styðji fjárhagslega við gerð umræddar myndar eða taki hana til sýningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert