Tóku tapi uppáhaldsliðsins illa

Stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool í Reykjavík tóku ósigrinum gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld misvel og einhverjir þeirra létu skapið hlaupa með sig í gönur. Lögreglan var kölluð að veitingahúsi á höfuðborgarsvæðinu þar sem fáeinir eldheitir „Púlarar" höfðu brotið glös í bræði sinni þegar úrslitin lágu fyrir. Enginn var þó handtekinn vegna þessa.

Á öðru veitingahúsi í umdæminu fóru aðdáendur AC Milan fram úr sjálfum sér í gleðilátum og kom til ryskinga. Engan sakaði.

Í miðborginni höfðu lögreglumenn svo afskipti af stuðningsmanni Liverpool eftir ábendingu frá vegfaranda. Knattspyrnuáhugamaðurinn hafði setið sem fastast í bílnum sínum í dágóða stund og var jafnvel talið að hann væri sofandi eða í annarlegu ástandi. Svo var þó ekki en vissulega var maðurinn mjög miður sín. Hann var ekki búinn að jafna sig eftir ósigurinn í úrslitaleiknum og sagðist aðspurður ekki treysta sér til að aka áfram að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert