Fundust eftir að hafa setið föst í bifreið síðan á föstudag

Víti og Öskjuvatn í baksýn
Víti og Öskjuvatn í baksýn mbl.is/Friðþjófur

Tékkneskt par sem byrjað var að grennslast fyrir um í gær fannst í bifreið sinni við Upptyppinga í nágrenni Öskju fyrr í dag. Er talið að parið hafi hafst við í bifreiðinni frá því á föstudag en mikill snjór er á svæðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Verið er að sækja fólkið og bifreið þeirra en ferðin sækist hægt þar sem það er mjög þungfært á þessum slóðum.

Maðurinn sem starfar við Héðinsfjarðargöng mætti ekki til vinnu á mánudag eins og til stóð og var í gær byrjað að svipast um eftir þeim. Að sögn lögreglu var ferð þeirra rakin til Fellabæjar á föstudag. Í morgun stóð til að kalla út björgunarsveitir en áður en leit hófst fannst fólkið heilt á húfi. Parið var á litlum fjórhjóladrifnum pallbíl en samkvæmt lögreglu er ekki ráðlagt að vera á ferð á þessum slóðum á öðrum bifreiðum en sérútbúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert