Segjast hafa stundað vændi hér á landi

Eistneska og lettneska lögreglan telur sig hafa öruggar upplýsingar um að þarlendar nektardansmeyjar hafi stundað vændi hér á landi. Þetta byggir lögregla m.a. á viðtölum við dansmeyjar sem hafa snúið aftur til Eistlands að lokinni dvöl á Íslandi.

Þær hafa sagt að vinnuveitendur þeirra á Íslandi hafi lagt að þeim að stunda vændi og hafi hótað þeim ofbeldi ef þær segðu frá.

Þessar upplýsingar fékk Tinna Víðisdóttir, lögfræðingur hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, en hún var meðal þeirra sem sátu ráðstefnu Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðanna um baráttu gegn verslun með konur sem lauk í Tallinn í Eistlandi í gær. Tinna segir að lögreglu hér á landi hafi grunað að vændi færi fram á nektarstöðum eða í tengslum við þá og þessar upplýsingar staðfesti þann grun. Tinna á von á nánari upplýsingum frá eistnesku og lettnesku lögreglunni um þessi mál.

Tinna segir að það hafi vakið mikla athygli að íslensk stjórnvöld skuli veita nektardansmeyjum atvinnuleyfi. "Þetta er hvergi annars staðar gert á Norðurlöndunum og þetta hefur í raun valdið hneykslun á ráðstefnunni," segir Tinna. Þeir sem gagnrýna þetta segja að með því að veita dansmeyjunum atvinnuleyfi séu stjórnvöld að búa í haginn fyrir menn og samtök sem hagnast á verslun með konur. Vitað sé að konurnar stundi vændi og hefur því verið haldið fram á ráðstefnunni að með útgáfu atvinnuleyfa til þeirra séu "íslensk stjórnvöld í hlutverki melludólgs".

Á ráðstefnunni kom einnig fram að stúlkurnar eru beittar blekkingum til að fá þær til að stunda vændi.

Aðeins þær nektardansmeyjar sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa atvinnuleyfi hér á landi og skv. upplýsinum frá Vinnumálastofnun eru þær um 20 um þessar mundir. Dansmeyjar sem koma frá löndum innan EES þurfa engin atvinnuleyfi og ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra. Frá áramótum hefur Vinnumálastofnun synjað næstum öllum nektarstöðum um útgáfu nýrra atvinnuleyfa til nektardansmeyja. Þeir staðir sem hafa fengið atvinnuleyfi eru Óðal og fyrirtækið Baltic sem rekur Maxims og Goldfinger. Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að ástæðurnar fyrir synjununum séu af ýmsum toga. Í nokkrum tilfellum hafi komið í ljós að tveir samningar voru í gildi við dansmeyjarnar. Annar var lagður fram hjá Vinnumálastofnun en hinn kom hvergi fram. Í aukasamningnum, sem ekki var framvísað, hafi verið ýmis ákvæði sem standist ekki íslenska vinnulöggjöf og því hafi stöðunum verið synjað um atvinnuleyfi. Í öðrum tilfellum hafi t.d. skort nauðsynleg gögn.

Í aukasamningunum hefur t.d. verið kveðið á um háar sektir ef nektardansmærin mætir ekki til vinnu eða brýtur að öðru leyti reglur nektarstaðarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert