Lægstu fargjöld Flugleiða lækka um tæpan þriðjung

Frá farskrárdeild Flugleiða.
Frá farskrárdeild Flugleiða. mbl.is/Sverrir

Flugleiðir bjóða nú upp fargjöld til Kaupmannahafnar fyrir 19.800 krónur með sköttum og til annarra áfangastaða í Evrópu fyrir 24.920 krónur. Ódýrustu fargjöldin til Kaupmannahafnar lækka því um u.þ.b. 31% þegar skattar eru reiknaðir með inn í verðið. Sætaframboð er takmarkað, einungis er hægt að bóka fjargjöldin, sem nefnast Smellir, á Netinu og verður að gera það með þriggja vikna fyrirvara. Kynntir voru þrír meginflokkar fargjalda á blaðamannafundi í dag.

Ódýrasta fargjaldið til Bandaríkjanna verður nú 47.820 krónur og er það einnig svonefndur Smellur. Hámarksdvöl er þrjár vikur og lágmarksdvöl er aðfaranótt sunnudags. Enginn barnaafsláttur er af Smellunum, ekki er um endurgreiðslu að ræða né möguleika á breytingum.

Þá var einnig kynntur nýr fargjaldaflokkur á Business Class til Evrópu og Bandaríkjanna. Með því að bóka með vikufyrirvara fæst farið fyrir lægra verð og t.d. er unnt að fá ferð til Glasgow fyrir 97.630 krónur. Ef flogið er út að morgni og heim að kveldi kostar 85.650 krónur til Kaupmannahafnar og 84.810 krónur til London.

Þá voru einnig kynnt í dag ný og lægri almenn fargjöld þar sem unnt er að fljúga til Evrópu fyrir 35.400 krónur og til Bandaríkjanna fyrir 67.940 krónur. Enginn bókunarfyrirvari er á þessum fargjöldum. Lágmarksdvöl er vika og hámark einn mánuður.

Forráðamenn félagsins kynntu verðbreytingarnar á blaðamannafundi í dag. Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, greindi frá því að í júlí og ágúst hefði farþegum til og frá Íslandi fjölgað á kostnað þeirra farþega sem fljúga yfir Atlantshafið með klukkustundar viðdvöl í Keflavík.

Sigurður greindi frá því að töluverð hagræðing hefði náðst í rekstri félagsins en hagnaður af rekstri á fyrri hluta ársins nam um 50 milljónum króna. Sigurður sagði að nú væru eingöngu notaðar 757-vélar og eru þær tólf talsins. Þess vegna hefði rekstrarkostnaður á sæti farið lækkandi.

Reikna með að farþegum fjölgi

Hann segir það stefnu félagsins að auka enn hlut þeirra farþega sem koma til landsins og fara frá því. Dregið hefur verið úr sætaframboði til Bandaríkjanna og því hyggst félagið auka sætaframboð frá Íslandi til Evrópu. Þá er verið auka sætaframboð fyrir Íslendinga og Bandaríkjamenn sem ferðast milli landanna tveggja. Sigurður segir að því séu möguleikar á að stækka íslenska markaðinn enn frekar, einkum yfir vetrartímann, þó svo að nýju fargjöldin gildi allt árið um kring. Hann segist vonast til að sætanýting aukist yfir vetrartímann og því sé ekki gert ráð fyrir að verðlækkunin hafi áhrif á tekjur félagsins, heldur sé fyrst og fremst reiknað með að farþegum muni fjölga. Sigurður segist gera ráð fyrir að verðbreytingarnar nú muni efla bæði stöðu Flugleiða og stöðu íslenskrar ferðaþjónustu.

Dreifikostnaður lægri með sölu fargjalda á Netinu

Hann segir að með því að bjóða ódýrustu fargjöldin eingöngu til sölu á Netinu sé verið að lækka dreifikostnað. Á undanförnum mánuðum hafi verið mikil aukning í sölu um Netið og ljóst að Netið sé framtíðin hvað sölu flugfargjalda varði.

Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, sagði að með verðbreytingunum sé verið að bregðast við ákveðnum breytingum í heiminum. Þetta sé í takt við aðgerðir annarra flugfélaga og þá þróun sem orðið hefur fyrir tilstilli Netsins. Með sölu fargjalda á Netinu megi ná til annarra markhópa en áður.

Reiknað með að selja netfargjöld fyrir a.m.k. 3 milljarða 2003

Í ár er búist við að fargjöld verði seld fyrir hálfan annan milljarð króna á Netinu, segir Steinn Logi, og bætir við á næsta ári sé reiknað með að upphæðin verði a.m.k. þrír milljarðar.

Verið sé að laga fargjaldaskipulagið að netvæðingunni og svo að fyrirtækjum.

Steinn Logi fullvissaði viðstadda á kynningarfundinum í dag um að það verði ekki þannig að ódýrustu fargjöldin verði alltaf uppseld. Því þó að sætaframboð verði takmarkað á netfargjöldunum verða nokkur þúsund slík í boði næstu vikur og mánuði. „Við erum að láta miklu fleiri sæti til sölu á íslenska markaðnum og til Íslands, sæti sem áður voru seld yfir hafið," segir Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert