Yfir 1600 létust í jarðskjálftanum í Alsír

Íslensku björgunarsveitarmennirnir að undirbúa för sína til Alsír í dag.
Íslensku björgunarsveitarmennirnir að undirbúa för sína til Alsír í dag. mbl.is/Sverrir

Ahmed Ouyahia, forsætisráðherra Alsír, sagði í dag að vitað væri að yfir 1600 manns hefðu látið lífið í jarðskjálftanum sem reið þar yfir á miðvikudagskvöld, og yfir 7000 manns hefðu slasast. Sautján menn úr Aljóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar héldu í dag áleiðis til Algeirsborgar, höfuðborgar Alsír, til að aðstoða við björgunarstörf.

Íslensku björgunarsveitarmennirnir fara héðan til Lundúna, þaðan til Rómar og loks til Alsír. Áætlað er að sveitin verði komin til Algeirsborgar kl. 12:20 á morgun að staðartíma. Í sveitinni eru 17 manns, 14 sjálfboðaliðar úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem sérhæft hafa sig í rústabjörgun, 1 læknir frá Landspítalanum og 2 bráðatæknar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Búnaður sveitarinnar vegur um 2 tonn og í honum eru allt sem sveitin þarfnast til að vera á vettvangi í 10-14 daga án utanaðkomandi aðstoðar og vista.

Meðal sérhæfðs búnaðar sem sveitin tekur með sér er hljóðleitartæki og myndavél til notkunar í hrundum byggingum þar sem leitað er að fórnarlömbum jarðskjálfta.

Sveitin var stofnuð 1999 með samkomulagi á milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Alþjóðasveitin er á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar. Sveitin fór í sitt fyrsta útkall árið 1999 þegar að hún fór til Tyrklands í kjölfar jarðskjálftanna sem urðu þar en þá létust meira en 18 þúsund manns. Sveitin hefur nokkrum sinnum verið kölluð út eftir það, síðast eftir jarðskjálftana sem urðu í Tyrklandi í byrjun maí á þessu ári.

Strax eftir jarðskjálftann í Alsír á miðvikudagskvöldið var kannað að hálfu Utanríkisráðuneytisins við yfirvöld í Alsír hvort þörf væri á aðstoð Alþjóðabjörgunarsveitarinnar. Fyrstu svör sem komu í morgun voru um það að ekki væri þörf frekari aðstoðar en stuttu seinna, kl. 11:20, óskuðu alsírsk stjórnvöld eftir aðstoð sveitarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert