Nýjar upplýsingar gerðu húsleit nauðsynlega

mbl.is/Kristinn

Samkeppniseftirlitið gerði í gær húsleit hjá verslanakeðjunum Högum, þ.ám. Bónus og Kaupási, sem rekur m.a. Krónuna, og einnig hjá þremur innflytjendum og heildsölum á matvörumarkaði, Innesi, Íslensk-ameríska og O. Johnson & Kaaber. Talsmenn Bónuss og Krónunnar fagna athuguninni og vonast til þess að niðurstöður liggi sem fyrst fyrir, þannig að þeir megi verða hreinsaðir af áburði um samráð.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkveldi að einstaklingar og fyrirtæki hefðu síðustu dagana veitt Samkeppniseftirlitinu upplýsingar sem gerðu það að verkum að nauðsynlegt hefði verið að fara í þessa aðgerð. Rannsóknin beindist bæði að hugsanlegu samráði smásölu og birgja og hins vegar milli smásöluverslana.

Aðspurður af hverju ekki hefði verið ráðist í þessar aðgerðir fyrr í ljósi umfjöllunar um samráð á matvörumarkaði að undanförnu. sagði Páll Gunnar að forsendur hefðu ekki verið fyrir húsleitinni fyrr en nú. „Við höfðum ekki nægileg gögn og upplýsingar úr fjölmiðlaumfjölluninni einni saman, en einstaklingar og fyrirtæki urðu við hvatningu um að veita okkur upplýsingar sem urðu okkur að liði og gerðu það að verkum að það var nauðsynlegt að fara í þessa húsleit. Það þarf að undirbúa húsleit vel og hún þarf að vera studd ríkum forsendum,“ sagði Páll.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins er athygli vakin á að það hafi þýðingu fyrir skjóta úrlausn málsins hvort fyrirtæki eða einstaklingar ákveði að liðsinna eftirlitinu við rannsókn þess og að það hafi áhrif á viðurlög.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert