Fyrstur útlendinga í stjórn Eflingar

Stanislaw Bukowski.
Stanislaw Bukowski. Árvakur/RAX

Stanislaw Bukowski frá Póllandi, sem hefur verið búsettur á Íslandi sl. 7 ár, tekur sæti í stjórn Eflingar stéttarfélags að loknum aðalfundi félagsins 23. apríl nk. Hann verður þar með fyrsti erlendi starfsmaðurinn sem tekur sæti í stjórn verkalýðsfélagsins.

„Ég varð mjög undrandi þegar mér var boðið að taka sæti í stjórn Eflingar og verða fyrsti félagsmaðurinn af erlendum uppruna sem hlýtur þann heiður,“ segir Stanislaw í forsíðuviðtali í Fréttablaði Eflingar. Hann tók sér smá-umhugsunarfrest til þess að ræða málið við fjölskylduna, sem hvatti hann til þess að taka þessari áskorun.

Stanislaw ólst upp í Suðaustur-Póllandi nálægt landamærum Úkraínu. Hann er menntaður bifvélavirki og starfar í dag sem tækjamaður hjá Garðaþjónustunni. Stanislaw talar reiprennandi íslensku þótt hann hafi aðeins setið eitt námskeið í íslensku og segist hafa lært mest af samræðum við annað fólk. Stanislaw segist í samtali við Morgunblaðið hafa starfað sem túlkur hjá Eflingu og oft aðstoðað pólska starfsmenn hér á landi.

Pólverjar sem hér starfa hafa fylgst með gerð nýju kjarasamninganna og segir Stanislaw að margir þeirra hafi leitað til sín um skýringar. Honum líst vel á samningana en segir að þeir séu óneitanlega mjög flóknir. Það sé sérstaklega gott að baráttan hafi skilað mestum kjarabótum fyrir þá lægst launuðu.

Mikill fengur fyrir félagið

Stanislaw er kvæntur Donato Honkowicz-Bukowski og eiga þau tvo syni. Donato kennir pólskum börnum íslensku í Hjallaskóla í Kópavogi og Pólverjum íslensku hjá Mími – símenntun. Hafa þau bæði unnið sem túlkar hjá Eflingu.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir mikinn feng fyrir félagið að fá Stanislaw í stjórnina. „Hann er mjög ferskur ungur maður með gott félagslegt hjarta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert