Margrét Pála og Viðskiptaráð hljóta frelsisverðlaun

Margrét Pála tekur við verðlaununum.
Margrét Pála tekur við verðlaununum. mbl.is/Árni Sæberg.

Margréti Pálu Ólafsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar, og Viðskiptaráði Íslands voru í dag veitt Frelsisverðlaun SUS, sem telur að Margrét hafi „með störfum sínum verið framúrskarandi fyrirmynd öllum þeim sem í krafti eigin hugmyndaauðgi og dugnaðar skapa nýja valmöguleika fyrir meðborgara sína og stuðla þannig að bættu samfélagi.“

SUS (Samband ungra sjálfstæðismanna) veitir verðlaunin til heiðurs Kjartani Gunnarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Í tilkynningu frá SUS segir:

„Að mati SUS hefur Margrét Pála með störfum sínum verið framúrskarandi fyrirmynd öllum þeim sem í krafti eigin hugmyndaauðgi og dugnaðar skapa nýja valmöguleika fyrir meðborgara sína og stuðla þannig að bættu samfélagi. Margrét Pála er sannur frumkvöðull og hefur ekki ráðist á garðinn sem hann er lægstur heldur stundað nýsköpun sína í atvinnugrein þar sem hið opinbera hefur löngum verið plássfrekt. Það hefur því þurft einarðan vilja, óbilandi sjálfstrú og þrautseigju til þess að koma á fót því glæsilega fyrirtæki sem Hjallastefnan er. Það er afrek Margrétar Pálu að bjóða upp á raunverulegan valkost í menntakerfinu. Þannig geta foreldrar tekið afstöðu til þess hvaða aðferðir þeir telji bestar í þeim uppeldisstörfum sem unnin eru á leikskólum og í grunnskólum.

Nokkurrar tortryggni gætir í garð frjáls framtaks í menntamálum og því hefur hið farsæla hugsjónar- og frumkvöðlastarf Margrétar Pálu verið framúrskarandi rökstuðningur fyrir yfirburðum einkaframtaksins. Frjáls markaðsbúskapur á sína bestu bandamenn ekki aðeins í þeim sem tala mest um kosti hans heldur ekki síður hjá þeim sem með störfum sínum sýna fram á yfirburði kerfisins til þess að framleiða verðmæti og auka fjölbreytileika í samfélaginu. Þannig hefur Margrét Pála áorkað meiru í þágu þessarar hugmyndafræði heldur en flestir þeir sem ljá málstaðnum lið með málflutningnum einum saman.

Viðskiptaráð Íslands fagnaði á síðasta ári því að 90 ár eru liðin frá stofnun samtakanna. Samtökin hafa frá stofnun verið vettvangur þar sem ríkt hefur trú á markaðsbúskap og athafnafrelsi. Á síðustu árum hefur Viðskiptaráð verið mikill aflvaki nýrra hugmynda um hvernig unnt sé að auka hag íslensku þjóðarinnar. Metnaðarfullar tillögur ráðsins hafa vakið verðskuldaða athygli og verið kveikja málefnalegrar umræðu um nýjar og frumlegar hugmyndir. Í tilefni 90 ára afmælis samtakanna var gefið út rit þar sem tæpt var á 90 hugmyndum sem myndu í framkvæmd auka samkeppnishæfni Íslands. Er skemmst frá því að segja að þessar hugmyndir eru mjög í anda þeirrar stefnu sem Ungir sjálfstæðismenn berjast fyrir. Þótt yfirlýst markmið Viðskiptaráðs sé að berjast fyrir hagsmunum viðskiptalífsins - en markmið ungra sjálfstæðismanna sé að berjast fyrir hagsmunum einstaklinga - þá vill svo vel til að þessi tvö markmið fara vel saman. Þannig eru áherslur Viðskiptaráðs um frjálsræði í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta og hagfellt skattaumhverfi í senn vænlegar fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Enda er frjálst og öflugt atvinnulíf grundvöllur velferðar og forsenda þess að einstaklingarnir geti nýtt hæfileika sína til fulls.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert