Þingi frestað fram í september

Atli Gíslason hlýðir á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á Alþingi í …
Atli Gíslason hlýðir á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fundum Alþingis var í nótt  frestað fram til 2. september en þá er gert ráð fyrir stuttu þinghaldi áður en hefðbundið þinghald hefst í októberbyrjun. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, las upp forsetabréf þessa efnis klukkan 2:10.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, sagði í lok fundarins, að áfram yrði haldið við umbætur á störfum þingsins. Sagðist hann telja að efla ætti eftirlitshlutverk þingsins og að opna ætti tiltekna fundi fastanefnda fyrir fjölmiðlum og hagsmunaaðilum. Forsætisnefnd hefði í apríl samþykkt tillögu hans um opna nefndarfundi og væri unnið að því að gera slíkt kleift. 

Meðal frumvarpa, sem urðu að lögum í kvöld, var heimild ríkisins til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán, frumvarp um Landeyjahöfn, lyfjalög, frumvarp um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, frumvarp um heimild einhleypra kvenna til tæknifrjóvgana og frumvarp um heimild presta til að staðfesta samvist. 

Þá voru samþykktar þingsályktunartillögur um mannréttindabrot og fangabúðir í Guantánamo og um stofnun skákseturs helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, sagði að með síðasttöldu tilllögunni væri ekki verið að taka undir pólitískar yfirlýsingar Fischers en Paul Nikolov, varaþingmaður VG, sagðist ekki geta stutt tillöguna vegna þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert