„Tíminn okkar helsti óvinur“

Hvítabjörninn að Hrauni á Skaga í gær.
Hvítabjörninn að Hrauni á Skaga í gær. mbl.is/RAX

Allt það sem þurfti að gera hefur verið gert. Nú er þetta aðeins spurning um að áætlanir gangi upp. Tíminn er okkar helsti óvinur,“ sagði Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun, í gærkvöldi. Hvítabjörninn, sem var hinn rólegasti í gærdag og fram á kvöld, var vaktaður í nótt og nutu sjö vaktmenn aðstoðar Landhelgisgæslunnar sem kom með þyrlu á vettvang.

Sérfræðingur frá dýragarðinum í Kaupmannahöfn kemur til landsins í dag, auk þess sem flutt verður hingað búr fyrir dýrið – 250 kg, 2 metrar á lengd og 1,4 metrar á breidd. Að sögn Hjalta er það sérfræðingsins að taka ákvörðun um hvert dýrið verður flutt. „Það veltur í raun og veru á hvað dýragarðurinn vill gera. Þar skiptir máli af hvaða kyni björninn er og hvað hann er gamall. En óskakostur okkar er að flytja hann til Grænlands.“ Raunar á eftir að ræða við stjórnvöld á Grænlandi sem þurfa að samþykkja flutning bjarndýrsins þangað.

Málið er reyndar aðeins flóknara því það veltur mikið á hvað björninn gerir. Þrátt fyrir að hann hafi verið rólegur í gær er ekkert sem segir að hann haldi ró sinni áfram. Lögregluyfirvöld á staðnum hafa leyfi til að bregðast við hverjum þeim aðstæðum sem upp koma. Ef björninn veldur á einhvern hátt almannahættu verður hann felldur. Tíminn er því lykilþáttur í málinu öllu. Hjalti segir allt hafa verið gert til að flýta för sérfræðingsins og búrsins, hins vegar hafi reynst erfitt að fá flug fyrir búrið með skömmum fyrirvara.

Ef allt gengur að óskum mun Landhelgisgæslan sinna veigamiklu hlutverki. Hún mun sjá um flutning búrsins norður og að öllum líkindum verður varðskip notað til að flytja björninn til Danmerkur eða Grænlands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert