Drekasvæðið kortlagt

Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í júní
Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í júní Af vef Hafró

Í júní var farinn 18 daga leiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar á rs. Árna Friðrikssyni á norðurhluta Drekasvæðis. Markmiðið var að kortleggja svæðið með fjölgeisladýptarmælingum, gera straummælingar og þjónusta straummælinga- og veðurdufl. Rannsóknirnar eru liður í því að afla almennra upplýsinga um svæðið fyrir iðnaðarráðuneytið vegna leitar á olíu og gasi.

Leiðangurinn tókst vel, að því er segir í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar og alls voru kortlagðir um 10.500 ferkílómetrar af hafsbotninum en það samsvarar um 1/10 hluta af flatarmáli Íslands. Áhersla var lögð á að kortleggja þær áhugaverðu myndanir sem þarna eru með tilliti til leitar á olíu og gasi.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í desember á síðasta ári tillögu iðnaðarráðherra um að stefnt verði að útboði sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu, norðaustur af Íslandi. Miðað er við að hægt verði að bjóða leyfin út 15. janúar 2009. Engin trygging er fyrir því að gas eða olía finnst á svæðinu.

Segir í tilkynningu iðnaðarráðuneytisins frá þeim tíma að niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga á svæðinu þykja gefa vísbendingar um að þar geti verið að finna bæði olíu og gas í vinnanlegu magni.

Jarðfræðilega er svæðið hluti af samfelldu setlagasvæði sem upphaflega tengdi saman meginlandsskildi Noregs og Grænlands og þar má finna þykk setlög. Víða hefur fundist olía og gas á nálægum og jarðfræðilega skyldum svæðum. Forsenda þess að nú er hægt að leita þessara auðlinda á Drekasvæðinu er sú mikla þróun sem orðið hefur í bor- og vinnslutækni á undanförnum árum, ásamt nýlegri reynslu af olíu- og gasvinnslu á miklu hafdýpi á norðlægum slóðum.

Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir, þarf hins vegar til að sannreyna hvort olíu og gas sé í reynd að finna á Drekasvæðinu. sem og umhverfisvernd og mengunarvarnir. Á næstu mánuðum verður unnið að því að endurskoða viðeigandi löggjöf og útfæra leyfisskilmála og skattalegt umhverfi vegna þessarar starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert