Af Mont Blanc á Matterhorn

Hópurinn sem gekk á Mont Blanc
Hópurinn sem gekk á Mont Blanc mbl.is

Fimm fjallgöngumenn úr Hjálparsveit skáta í Reykjavík gengu á Mont Blanc, hæsta fjall Alpanna og Vestur-Evrópu sem er 4.810 m hátt, á sunnudaginn var. Þeir stefndu svo að því að leggja af stað á Matterhorn (4.478 m) aðfaranótt mánudags.

„Við lögðum af stað á laugardag og tók gangan um sólarhring og gekk mjög vel,“ sagði Ásbjörn Hagalín Pétursson, einn leiðangursmanna. Hann sagði að þegar þeir lögðu af stað upp Goûter-leiðina um kl. þrjú um nóttina hefði kuldinn verið um -20°C og með vindkælingu hefði verið býsna kalt. Stutt er liðið síðan átta fjallgöngumenn fórust í snjóflóði í svonefndri Tacul-brekku sem er fyrsta brekkan í þriggja tinda leiðinni á Mont Blanc. Íslendingarnir gengu umrædda brekku í báðar áttir síðastliðinn miðvikudag þegar þeir ætluðu þá leið á Mont Blanc en sneru við. En hvers vegna sneru þeir við?

„Það hafði verið svolítil snjókoma og stormur þarna svo við ákváðum að snúa við þegar við vorum búnir með um tvo þriðju hluta leiðarinnar og fara frekar Goûter-leiðina,“ sagði Ásbjörn. Hann sagði að þeir hefðu því þrammað Tacul-brekkuna fram og til baka en reynt að fara varlega.

Ásbjörn sagði að leiðin á Matterhorn krefðist meira klettaklifurs en leiðin á Mont Blanc. Þar er fremur hætta á grjóthruni en snjóflóðum. Þeir fóru í fjallaskála í gær og lögðu svo upp þaðan. Auk Ásbjörns eru í leiðangrinum Árni Þór Lárusson, Daníel Guðmundsson, Trausti Björn Ingólfsson og Arnar Ingi Guðmundsson. Þeir eru á aldrinum 19-26 ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert