Lega Íslands kann að gera landið viðkvæmara fyrir loftlagsbreytingum

Sérstök lega Íslands kann að gera það viðkvæmara fyrir loftslagsbreytingum að mati Rowan Douglas, þekkts sérfræðings á þessu sviði en hann flytur erindi á málþingi um loftlagsbreytingar 1. október á vegum Sjóvá og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Douglas segir einnig að möguleiki á hröðum loftlagsbreytingum, til dæmis vegna breytinga á hafstraumum, geti haft umtalsverð áhrif á atvinnulíf á Íslandi, þar á meðal fiskveiðar og ferðamannaiðnað.

Douglas er framkvæmdastjóri alþjóðagreiningardeildar Willis Re og formaður Willis Research Network, en það er stærsta samstarfsnet háskóla og tryggingafélaga í heiminum og hefur það að markmiði að hvetja til umræðu um náttúruvá og hlýnun jarðar. Douglas var nýlega tilnefndur af vísindamálaráðherra Breta, Ian Pearson, til setu í National Environment Research Council í Bretlandi. Tilnefningin undirstrikar að fræðasamfélagið og viðskiptaheimurinn eru í vaxandi mæli að vinna saman í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

„Hingað til hefur umfjöllunin um hlýnun jarðar kannski eðlilega verið stýrt af stjórnvöldum byggðri á skýrslum vísindamanna. Vegna alvöru málsins er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar eins og vátryggingarfélög komi fram og greini afleiðingar loftlagsbreytinganna fyrir viðskiptavini sína og veki athygli á vandanum. Með aukinni tíðni tjóna af völdum náttúruhamfara liggur fyrir að þörfin fyrir vátryggingar mun aukast. Fyrir tryggingarfélag eins og Sjóvá er það mikil áskorun að fullnægja slíkum þörfum en jafnframt að tryggja að hagsmunir þess sem vátryggjanda séu ekki fyrir borð bornir með aukinni vátryggingaráhættu," segir Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá, en tjón af völdum náttúruhamfara í heiminum á árinu 2007 voru tíðari og alvarlegri en oft áður. Sem dæmi má nefna að flóðin í Englandi sumarið 2007 eru metin á 3 milljarða dollara.

Aðrir fyrirlesarar á málþinginu eru Dr. Ernst Rauch, yfirmaður deildar um veðurfarslegar áhættur hjá Munich Re endurtryggingafélaginu í Þýskalandi, Halldór Björnsson formaður vísindanefndar umhverfisráðuneytisins um loftlagsbreytingar og Rögnvaldur Gíslason efnaverkfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð, en hann mun fjalla um hugsanleg áhrif hlýnunar á byggingarefni og mannvirki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert