Hvað vilja Rússar?

Morgunþáttur einu sjálfstæðu útvarpsstöðvarinnar í Moskvu var undirlagður af reiðum Rússum sem hringdu inn til að kvarta yfir efnahagsstjórn Kremlinga. Þennan þriðjudagsmorgun hafði frést að í stað þess að nota olíugróða til að styrkja innviði landsins, átti að senda svimandi upphæð til lands sem mældist með mestu lífsgæði í heimi. Rússar eru svo sem vanir því að auðæfum landsins sé misskipt, en þetta þótti hlustendum ósvinna.

Dagblaðið International Herald Tribune velti því upp að Rússar hefðu orðið að bjarga peningunum úr landi vegna verðbólgu. En nú hljóta mörg ríki að vera trúverðugri, og allir í leit að meiri gjaldeyri. Það hlýtur að búa meira að baki.

Hvorki herstöð né kafbátar

Seinna um daginn furðuðu hershöfðingjar í hernaðarmiðstöð Atlantshafsbandalagsins í Mons í Belgíu sig á því yfir hádegismat hvað Rússarnir hefðu eiginlega í hyggju. Hvað sjá þeir við Ísland sem við sjáum ekki?

Þeim fannst ekki líklegt að um beina hernaðarlega hagsmuni væri að ræða. Það verður engin rússnesk herstöð á Miðnesheiði eða kafbátahraðbraut um Reykjaneshrygg. Rússar eru vart svo einfaldir að þeir haldi að fjórir milljarðar evra dugi til að gera Íslendinga afhuga NATO, þó svo forsætisráðherrann hreyti í gamla vini.

Heimildarmaður 24 stunda, sérfræðingur NATO í málefnum Rússlands, sagði að lánstilboðið minnti um margt á söguna um Fást, sem seldi sál sína djöflinum. Hann varaði við að Rússar myndu setja sem skilyrði rýmkun á reglum um vegabréfsáritanir og lögum um eignarhald á fyrirtækjum á Íslandi. Þannig opnuðu þeir sér leið inn á markaðinn og ef ekki væri gætt að, þá eignuðust þeir landið með húð og hári.

Kannski sjá þeir sér hag í því að hafa tangarhald á Íslandi þegar siglingaleiðin norður fyrir Ameríku opnast. Hugsanlega vilja þeir rannsóknarleyfi fyrir olíuborun. Þetta er erfitt að geta sér til um.

Vakandi fyrir skilyrðum

Rússar eru búnir að átta sig á að það er miklu auðveldara að stjórna heiminum með beinhörðum peningum, heldur en með kjarnaoddum. Þeir gera þetta hvorki af góðmennsku né af hlakkandi húmor yfir því að geta komið NATO-þjóð til bjargar. Íslenska þjóðin þarf að fylgjast vel með samningunum sem hefjast í Moskvu á þriðjudag og krefjast svara um skilyrði Rússa. Það má ekki semja burt sálina.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert