Formennskuáætlun í prentun

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra mbl.is/Guðmundur Rúnar

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót fyrir hönd Íslands. Norrænu ríkin skiptast á að fara með formennskuna og leiða starfsemi nefndarinnar eitt ár í senn. Ísland gegndi síðast formennsku í nefndinni 2004.

Samkvæmt upplýsingum frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins er formennskuáætlun Íslands nú í prentun en Geir H. Haarde forsætisráðherra mun kynna hana á þingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í Helsinki dagana 27.-29. október nk. Innihald skýrslunnar er trúnaðarmál þar til hún verður kynnt en þegar leitað var upplýsinga hjá Norðurlandaskrifstofunni um umfang formennskuáætlunarinnar fengust þær upplýsingar að eins og jafnan fylgdi formennskunni að fleiri fundir fagráðherra og embættisnefnda yrðu haldnir hér á landi en ella. Einnig yrði efnt til um tíu ráðstefna og sex málþinga sem tengdust áherslum Íslendinga á formennskutímanum.

Stærsti fyrirhugaði viðburðurinn á formennskuári væri svokallað hnattvæðingarþing sem halda ætti í febrúar þar sem allir norrænu forsætisráðherrarnir mundu mæta svo og sérfræðingar og fulltrúar úr norrænu atvinnulífi.

Spurð um fjármögnun verkefna á formennskuári Íslendinga segir Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu, meginregluna þá að ráðherranefndin fjármagni verkefnin að fullu. Spurð hvaða aukakostnaður muni lenda á Íslendingum segir Snjólaug erfitt að meta það sem stendur. Til samanburðar megi hins vegar nefna að þegar Ísland gegndi formennskunni árið 2004 hafi Norðurlandaskrifstofan fengið rúmar 12 milljónir króna til þess m.a. að standa undir risnukostnaði hérlendis vegna fundahalda, til að prenta formennskuáætlun og mæta kostnaði vegna aukinna ferðalaga á formennskuárinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert