Endurgreiðsla VSK verði hækkuð

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur beint því til fjármálaráðherra, að hann hlutist til um tímabundna breytingu á lögum þannig að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði hækkuð í allt að 100% í stað 60%.

Um er að ræða tillögu starfshóps, sem skipðaður var skömmu fyrir áramót til að  móta aðgerðir gegn atvinnuleysi.

Fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins, að í tillögum starfshópsins til ráðherra hafi komið fram, að grípa þyrfti til margvíslegra úrræða til að bregðast við gríðarlegum samdrætti í byggingariðnaði. Nauðsynlegt væri að beina sjónum fyrst og fremst að viðhaldsverkefnum í ljósi offramboðs á fasteignum og lækkandi fasteignaverðs.

Tillögurnar lúta að því að rýmka verulega heimildir Íbúðalánasjóðs til lána vegna stórra og smárra viðhaldsverkefna, innan húss sem utan og jafnt vegna leiguhúsnæðis í eigu félaga, félagasamtaka og jafnvel sveitarfélaga, ekki síður en eignaríbúða einstaklinga eins og heimildir sjóðsins hafa miðast við hingað til.

Ráðherra hefur þegar staðfest tvær reglugerðir um starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem meðal annars er kveðið á um endurbótalán vegna leiguíbúða sem vænst er að ýta muni undir framkvæmdir og fjölga störfum. Þar er kveðið á um nýja lánaflokka, rýmri útlánareglur og heimildir til veðlánaflutninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert