Skaðleg litarefni enn í mat?

Neytendasamtökin hyggjast kanna hvort íslenskir framleiðendur noti enn óæskileg litarefni í vörur sínar. Í kjölfarið verður birtur listi yfir þær vörur sem innihalda efnin umdeildu.

Neytendasamtökin sendu Samtökum iðnaðarins bréf á síðasta ári og hvöttu íslenska framleiðendur til að fjarlægja umdeild litarefni úr vörum sínum. Í svari frá forstöðumanni matvælasviðs samtakanna kom fram að fyrirtækin leiti nú allra leiða til að finna ný og öruggari efni.
Efnin voru bönnuð hér á landi til ársins 1997 þannig að matvælaframleiðendur ættu að hafa reynslu af því að sneiða hjá þeim.

Víða erlendis hafa framleiðendur skipt efnunum út og fyrr á árinu samþykkti Evrópuþingið að matvæli sem innihalda eitthvert hinna sex umdeildu efna skuli merkt með sérstakri varúðarmerkingu; Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna. Neytendasamtök telja að matvæli sem merkja þarf með varúðarmerkingu eigi einfaldlega ekkert erindi til neytenda, hvað þá þeirra yngstu.

Sænsku neytendasamtökin hafa hvatt sænsk fyrirtæki til að fjarlægja efnin úr matvælum en samkvæmt nýrri úttekt gengur það hægt. Í nýrri fréttatilkynningu frá Sveriges Konsumenter (sænsku neytendasamtökunum) er hægagangur sænskra matvælafyrirtækja harmaður.

Neytendasamtökin hyggjast kanna ástandið hér á landi fljótlega og birta lista yfir þær vörur sem innihalda efnin umdeildu; E102, E104, E110, E122, E124 og E129.

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert