Borgarfulltrúar vilja alþjóðasamstarf

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri. Rax / Ragnar Axelsson

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í dag að hefja vinnu við að móta áherslur í alþjóðasamskiptum vegna nýrra aðstæðna í efnahagsumhverfinu.  Í sameiginlegri bókun borgarfulltrúa Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna segir að borgarfulltrúarnir séu sammála um mikilvægi þess, að við þær aðstæður sem nú eru í íslensku samfélagi, sé nauðsynlegt að borgaryfirvöld taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi sem nýst geti höfuðborginni til nýrrar sóknar.

Eini borgarfulltrúinn sem ekki skrifar undir þessa sameiginlegu bókun er Ólafur F. Magnússon, F-lista. Á síðasta fundi borgarráðs, 21. apríl síðastliðinn, gagnrýndi hann harðlega ferðakostnað borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Tók hann þá meðal annars fram að ferðakostnaður hjá þeim flokki hefði verið um 1,8 milljónir á árinu 2007.

Allir aðrir borgarfulltrúar eru sammála um að tækifærin í alþjóðasamstarfi geti legið víða, en nú þegar fjármagn sé takmarkað verði forgangsraðað í þágu ákveðinna verkefna í alþjóðlegu samstarfi. Þau verkefni geti „til dæmis verið: Fjárhagslegar og félagslegar lausnir við efnahagsvandanum. Mikilvægar íslenskar umhverfisáherslur. Aðgerðir til að gera Reykjavík að enn betri ferðamannaborg,“ eins og segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Til að móta þessar áherslur enn frekar mun borgarráð skipa vinnuhóp fimm borgarfulltrúa, undir forystu borgarstjóra,  sem skilar tillögum til borgarráðs eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert