Þumalskrúfur og vinarklær AGS

Ögmundur Jónasson tók við heilbrigðisráðuneytinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, en …
Ögmundur Jónasson tók við heilbrigðisráðuneytinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, en óvíst er hvort hann verður áfram í því embætti í vinstristjórninni.

„Sem þjóð þurfum við að hafa á okkur andvara svo lengi sem við hvílum í þeirra vinarklóm,“ sagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, á aðalfundi Landspítalans í Salnum í  Kópavogi í dag.

„Nú er sem betur fer kappsamlega unnið að því að koma skuldastöðu þjóðarinnar í ásættanlegri farveg en mótaður var í haust leið. Í þeirri vinnu finnum við fyrir klónum á lánadrottnum, sem fengið hafa sérfræðingana frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sér til halds og trausts en sem kunnugt er hafa þeir mikla reynslu í að færa skrúfurnar upp á þumalinn á skuldugum þjóðum, einkum suður í álfum, stundum með skelfilegum afleiðingum,“ sagði Ögmundur.

Aldrei yrði ofsagt hve mjög liggi við að Íslendingar standi þétt saman og ræði af einurð en jafnan af yfirvegun við varðstöðumenn alþjóðafjármagnsins, eins og hann kallaði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ummælin lét hann falla í sama mund og hann fjallaði um þann niðurskurð sem framkvæma þarf í heilbrigðiskerfinu á næsta fjárlaga ári, 6,7 milljarða króna og þar af 2,6 milljarða hjá LSH.

„Ég sagði að ástandinu á Íslandi mætti einna helst líkja við styrjaldarástand, eða afleiðingar styrjaldar. Það eru fjölmargir hér í okkar samfélagi sem eru svartsýnir á framtíðina, óttast um eigin hag og sumir sjá ekki út úr skuldunum sem þeir steyptu sér í,“ sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert