Sauðburður við Reykjanesbraut

Fimmtíu kindur eru heimilisfastar við Reykjanesbrautina og þar er sauðburður í fullum gangi. Fjórir frístundabændur fóstra þær en þeir hafa allir alist upp í sveit en búa núna í þéttbýli.  Líf og fjör var í fjárhúsinu í dag þótt rigningin lemdi húsið að utan.  

Í gær bar kindin Jóhanna lambinu Steingrímu sem hljóp léttfætt kringum mömmu sína í dag, Lúðvík Geirsson hristi öll fjögur hornin og tvö lömb komu í heiminn fyrir framan sjónvarpsmyndavél mbl í morgun.

Féð við Reykjanesbraut er einstaklega fallegt en það er árangur áratugalangra fébóta Kornelíusar gullsmiðs í Bankastrætinu og frístundabónda  sem seldi bændunum safnið. Í júníbyrjun fara kindurnar á afrétt í Krísuvík en áður en það gerist bjóða bændurnir til veislu. Í fyrra komu 2 til 300 manns en núna er jafnvel búist við enn fleirum því öllum er boðið sem vettlingi geta valdið á sunnudaginn klukkan 2.

Ali ætlar að leggja til veitingarnar og það er um að gera að drífa sig og skoða þennan fallega og sérstæða fjarstofn bændanna við Reykjanesbraut. Fjárhúsin eru hægra megin brautarinnar, séð frá Reykjavík, milli Hvassahrauns og Álversins í Straumsvík.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert