Brennisteinslykt af Jökulsá á Sólheimasandi

Skjálftavirkni í Eyjafjallajökli
Skjálftavirkni í Eyjafjallajökli Af vef Veðurstofu Íslands

Mikil brennisteinslykt hefur verið úr Jökulsá á Sólheimasandi undanfarna daga, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Skjálftavirkni hefur verið undanfarna daga í Eyjafjallajökli. Almannavarnir fylgjast með gangi mála þar ásamt Veðurstofu Íslands. Ekki hefur verið talin ástæða til frekari rástafana að svo komnu máli en áfram verður fylgst vel með. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli.

Þar kemur fram að á föstudag skiluðu sex íslenskar konur sér ekki í náttstað. Þær fóru í göngu frá Núpahrauni og ætluðu í Djúpárdal, Fljótshverfi, Vestur Skaftafellssýslu. Björgunarsveitir á svæðinu frá Hellu að Kirkjubæjarklaustri voru kallaðar út. Mikil þoka var á svæðinu og var hún ástæðan fyrir að konurnar villtust. Þær voru með GPS tæki sem hafði ekki nýst þeim sem skyldi. Félagar úr Björgunarsveitinni Kyndli á Kirkjubæjarklaustri fundu konurnar um kl. 04:00 um nóttina heilar á húfi.

Bílvelta varð á Þórsmerkurvegi og var einn maður í bifreiðinni. Var hann fluttur á sjúkrahús til Reykjavíkur. Meiðsl hans voru ekki talin vera mjög alvarleg. Hjólhýsi valt austan við Þjórsá og urðu miklar skemmdir á því en engin slys á fólki, að því er segir í dagbók lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert