Opnar möguleikann á að skila lyklunum

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir mbl.is/Ásdís

Lilja Mósesdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um breytingu á lögum um samningsveð sem lagt hefur verið fram á Alþingi. 

Verði lagabreytingin að lögum mun það þýða að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til.

Í því felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum eignum sínum. Jafnframt á lántaki að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til greiðslu þess.

Ekki skiptir máli hvort veðsali er lántaki eða þriðji maður. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að þar sem frumvarpið mæli fyrir um frávik frá umræddri meginreglu kröfuréttar sé ekki um eiginlega afskrift að ræða sem leiðir til skattskyldu.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að staða margra íslenskra heimila hafi  versnað til muna í kjölfar bankahrunsins sem haft hafi  í för með sér hækkun skulda, rýrnun eigna, minni tekjur og skertan lánsfjáraðgang. Fasteignaveðlán vegi almennt þyngst í skuldum heimilanna.

„Við núverandi aðstæður er hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum sem ekki getur talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu staðið við skuldbindingar sínar við eðlilegri kringumstæður,“ segir m.a. í greinargerðinni.

Tekið er fram að frumvarpinu sé ætlað að styrkja stöðu skuldara sem hafi í kjölfar bankahrunsins orðið fyrir verulega neikvæðum áhrifum gengis og verðtryggingar. „Telja verður að staða einstaklinga og heimila sé svo alvarleg um þessar mundir að til samfélagslegrar eyðileggingar horfi ef gamalgróinni reglu samningaréttarins um að samninga skuli halda verður fylgt til hins ýtrasta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert