Íslensku skegghúfunni stolið

Bíræfnir hönnunarþjófar hafa stolið hönnun hinnar íslensku skegghúfu og hafið fjöldaframleiðslu á henni sem seld er á netinu.

Fimm ungir hönnuðir standa að hópnum Vík Prjónsdóttur sem hannar og framleiðir nýstárlegar ullarvörur í samvinnu við prjónaverksmiðjuna Víkurprjón. Meðal vinsælustu afurðanna er skegghúfan en undanfarið hefur hönnunarhópurinn staðið í stappi við bandaríska hönnunarþjófa sem fyrir einu og hálfu ári tóku að framleiða húfuna án leyfis og selja hana á netinu á mun lægra verði en frumgerðina.

Eftirlíking Beardhead.com er nokkuð nákvæð, bæði hvað varðar hönnunina sjálfa, prjónamynstrið og litina þótt notast sé við gerviefni í stað íslensku ullarinnar.

Hin upprunalega skegghúfa Víkur Prjónsdóttur hefur m.a. verið til sölu í New York í versluninni Scandinavian Grace, og hefur eigandi hennar fengið lögfræðing til að vinna í málinu. Þá er ný heimasíðu hönnunarhópsins í burðarliðnum og stefnir hann að því að verða sýnilegri á samskiptavefjum en hingað til, því þar hefur þjófurinn, Beardhead, stofnað aðdáendahóp um sjálfan sig.

Talsmaður Víkur Prjónsdóttur segir að það væri mikils virði að fá stuðningsmenn íslensku húfunnar til liðs við hópinn með því að skrá sig á fésbókarsíðu Beardhead þar sem þeir myndu vekja máls á því að um stolna hönnun er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert