Ótrúlegur samdráttur í fjárfestingum

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. Golli/Kjartan Þorbergsson

„Aðalskýringin á þessu er samdráttur í fjárfestingum. Þær minnka um helming sem er alveg ótrúlegur samdráttur,“ segir Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra um tölur sem Hagstofan birti í dag sem sýna að landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 6,5% í fyrra.

„Þetta eru auðvitað vondar tölur, en þær eru þó betri en menn áttu von á. Landsframleiðslan dregst saman um 6,5% á síðasta ári sem er mjög slæmt og versta tala frá því mælingar hófust. Í ljósi þess að menn voru fyrir ári að spá yfir 10% samdrætti þá er þetta þó skárra. Aðalskýringin á þessu er samdráttur í fjárfestingum. Þær minnka um helming sem er alveg ótrúlegur samdráttur. Það þýðir að ef okkur tekst að fá fjárfestingar í af einhverju marki í gang aftur ætti það að hjálpa okkur að ná vopnum okkar.“

Gylfi sagði vissulega rétt að það væri óvissa um hvenær tækist að auka fjárfestingar á ný. „Ef endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dregst fram eftir ári þá eru allar líkur á að þær forsendur gangi ekki eftir. Þá erum við að horfa upp á verulegan samdrátt á þessu ári, þó að hann verði eitthvað minni en í fyrra,“ sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert