Gosórói er aftur að vaxa

Gosórói hefur vaxið aftur í dag en hann datt talsvert …
Gosórói hefur vaxið aftur í dag en hann datt talsvert niður í nótt sem leið. Þór Kjartansson

Gosórói við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi hefur farið vaxandi í dag. Óróinn datt niður í nótt og framundir morgun. Upp úr klukkan 18.00 kom hrina nokkurra jarðskjálfta upp á 2-2,5 stig. Þeir fundust m.a. í Húsadal í Þórsmörk. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur dregið úr gosóróanum í heildina frá því fyrir helgina. Nú um kvöldmatarleytið var óróinn að ná svipuðu stigi og hann var á í gærkvöldi. 

Ragnheiður Hauksdóttir, staðarhaldari í Húsadal í Þórsmörk vonar að opnað verði fyrir ferðir í Þórsmörk, jafnvel þegar á morgun. Það er þó ekki ákveðið, að hennar sögn.

„Miðað við stöðuna núna skilst mér að það eigi jafnvel að athuga það á morgun,“ sagði Ragnheiður. Hún sagði að þeim hafi verið gefin svolítil von um að það verði opnað, en það getu þó breyst með skömmum fyrirvara.

„Núna eru búnir að vera einhverjir 5-6 jarðskjálftar en nánast ekkert þar á undan,“ sagði Ragnheiður um kl. 19.30 í kvöld. Hún sagði að þau hafi fundið nokkra jarðskjálfta í Húsadal og allt nötrað í stóra húsinu í stærsta skjálftanum.

„Maður er orðinn hálf ónæmur fyrir þeim, það er ekki nema þeir verði nærri sem maður verður meira var við þá,“ sagði Ragnheiður um jarðskjálftana.

Hún sagði að þau úr Húsadal hafi farið inn í Langadal í gær og ekið aðeins í áttina að Básum og allt virst vera með kyrrum kjörum líkt og var fram eftir degi í dag.

„Nú er að færast einhver órói í þetta, en maður gerir sér ekki grein fyrir hvað mikið það er,“ sagði Ragnheiður.

Mikil bílaumferð hefur verið fyrir vestan Húsadal, inn af Fljótshlíðinni. Þau í Húsadal horfa beint yfir á ferðamannastrauminn þar. Ragnheiður sagði að það hafi verið ævintýraleg sjón að sjá alla bílana um helgina.

„Það hefur verið ótrúlegur fjöldi af bílum hérna hinum megin. Þegar maður horfði upp í Einhyrning var eins og það væri búið að setja jólaskraut yfir!

Það er grátlegt að vera hérna megin og geta ekki boðið þessu fólki að koma yfir. Mér hefur fundist það vera pínleg staða. Að öðru leyti væsir ekkert um okkur hér.“

Margir hafa hringt í Húsadal og spurt um gistingu um páskana og þó nokkurir hringt í dag. „Ég vona að það verði svolítið líflegt hjá okkur og að þetta fái að opnast,“ sagði Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert