Hvor sjóður fær 900 milljónir

Ríkið mun leggja félögunum tveimur, sem stofnuð voru utan um rekstur Byrs annars vegar og Sparisjóðsins í Keflavík hins vegar, til 5 milljónir evra  fjárframlag hvoru, eða 900 milljónir króna, en það er sú lágmarksfjárhæð sem þarf til að stofna fjármálafyrirtæki.

Þetta kom fram hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í dag. Hann stofnaði í morgun tvö fjármálafyrirtæki sem taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs en stjórnir þessara sparisjóða óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið í gær, að það tæki yfir starfsemi sparisjóðanna.

Nýr sparisjóður yfirtekur öll innlán í Sparisjóðnum í Keflavík og eignir til að mæta þeim skuldbindingum.  Innlán og eignir Byrs flytjast á sama hátt til nýs fjármálafyrirtækis sem stofnað er í þessu skyni.

Steingrímur sagði, að þetta hefði verið talin vænlegasta leiðin og að talið hefði verið mikilvægt að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem sparisjóð vegna þýðingu hans fyrir sparisjóðakerfið í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert