Minni ölvunarakstur og færri slys í umferðinni

Lögregla fylgist með umferðinni.
Lögregla fylgist með umferðinni. Júlíus Sigurjónsson

Umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um fimmtung, eða 20%, á fyrstu 5 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Umferðaróhöppum þar sem ölvun kemur við sögu fækkar líka á sama tímabili og eru það góð tíðindi að mat lögreglunnar.

Slysum fækkaði mest í Mosfellsbæ samkvæmt skýrslunni, eða um 80% úr 5 slysum frá janúar-maí í fyrra í 1 slys árið 2010. Á sama tíma fækkar slysum í Hafnarfirði um 61%, í Laugardal og Vesturbæ Reykjavíkur um 50% og í Háaleitishverfi um 42%.  Slysum fjölgaði hinsvegar í Árbæ um 41%, úr 12 slysum á tímabilinu í fyrra í 17 slys í ár.

Þegar skoðuð eru öll umferðaróhöpp- og slys þar sem grunur leikur á ölvun ökumannsins kemur í ljós að þeim fækkar um 6% á milli ára, úr 66 árið 2009 í 62 árið 2010. Á sama tíma fækkar kærum vegna ölvunaraksturs um 9%, úr 385 tilvikum í 349. Kærum vegna ölvunaraksturs fækkaði líka á milli áranna 2008 til 2009 og segir í skýrslunni að þetta sé athyglisverð þróun sem bendi til þess að ölvuðum ökumönnum fari fækkandi í umferðinni.

Á hinn bóginn fjölgar umferðaróhöppum sem tengjast fíkniefnaneyslu um 21% á milli ára, úr 19 tilvikum í fyrra í 23. Árin 2007 og 2008 voru óhöpp tengd fíkniefnaakstri 14 talsins. Kærum vegna fíkniefnaaksturs hefur hins vegar fækkað um 9%, eftir mikla fjölgun árið 2009 frá 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert