Margir skoða skepnuna

Ekki fer mikið fyrir sjö ára snáða uppi á kvið …
Ekki fer mikið fyrir sjö ára snáða uppi á kvið hvalsins. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Margir hafa lagt leið sína að eyðibýlinu Ásbúðum á Skaga eftir að það spurðist út að þar hefði rekið á land steypireyð. Sjaldgæft er að þessi stærsta skepna jarðarinnar reki á fjörur hér á landi enda heldur hún sig venjulega djúpt norður af landinu og alls ekki á grunnsævi.

Starfskona Hafrannsóknarstofnunar hefur tekið sýni úr hvalnum til rannsóknar. Að sögn hennar er hér um að ræða tæplega 21 metra langa kvígu  en ekki vildi hún geta sér til á þyngd skepnunnar.

Bændur í nágrenni við Ásbúðir eru ekkert hrifnir af hvalrekanum því þeir óttast að grútarmengun frá hræinu muni spilla æðarvarpi.

Þarf að draga á haf út

Ekki er árennilegt að urða hræið því gröfin þyrfti að vera eins og stór húsgrunnur að flatarmáli og mun dýpri. Eina ráðið til að forðast mengun af völdum hvalsins er sennilega að draga hræið á haf út og sprengja það þar eða sökkva á einhvern annan hátt. Til þess þarf öflugt skip því hér er sennilega um allt að 100 tonna flykki að ræða. Þá kemur strax upp spurningin um það hver eigi að borga fyrir slíkar aðgerðir.

Steypireyður er blágrá að lit en hræið í fjörunni er orðið ljóst  af  því að ysta lag húðarinnar  hefur flagnað af að mestu. Fullvaxin steypireyður getur orðið 25 til 33 metrar að lengd og vegið allt að 190 tonnum. Hún er skíðishvalur og étur um fjögur tonn á dag á sumrin en aðalfæða þessarar  stærstu skepnu jarðar eru ein minnstu dýr hafsins, krabbasvifdýr.

Steypireyður er alfriðuð frá árinu 1960.

Sagan um Jónas í hvalnum verður hreint ekki svo ótrúleg …
Sagan um Jónas í hvalnum verður hreint ekki svo ótrúleg þegar staðið er við hliðina á steypireyðinni. mbl.is/Ólafur Bernódusson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert