Ráðherra dreginn fyrir landsdóms vegna Icesave?

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ómar Óskarsson

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi að niðurstaða málshöfðunar gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum gæti haft áhrif á hvort reynt yrði að höfða mál gegn Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra vegna þess hvernig hann hefur haldið á Icesave-málinu.

Ólöf sagði að þegar fjallað væri um ákærur á hendur ráðherrum yrðu menn að hafa í huga þau nútímamannréttindaviðmið sem tekið hafa gildi eftir að lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð voru sett árið 1963.

Ólöf minnti á að innan þingsins væri rík krafa um að embættisfærsla fjármálaráðherra vegna þess hvernig hann hefur haldið á Icesave-málinu yrði rannsökuð. Niðurstaða þeirrar tillögu um málshöfðun sem nú væri rædd á Alþingi gæti haft áhrif á hvernig tekið yrði á þessari kröfu.

Ólöf sagði að þó fram hefðu verið komnar upplýsingar á árinu 2008 um að fjármálakerfið ætti við alvarlegan vanda að stríða hefði mönnum ekki mátt vera ljóst að það mynd hrynja með þeim hætti sem það gerði. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna hefði ekki búist við hruni Lehman Brothers með þeim afleiðingum sem það hefði haft fyrir fjármálalífið í Bandaríkjunum. Engum hefði samt dottið í hug að draga hann fyrir dóm.

Ólöf minnti á að í rannsóknarskýrslu Alþingis hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að síðasta tækifæri til að koma í veg fyrir hrun bankakerfisins á Íslandið hefði verið á árinu 2006. Þetta þyrftu menn að hafa í huga Þegar fjallað væri um ákærur á hendur ráðherrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert