Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD

Ísland hefur dregist aftur úr hvað varðar menntunarstig þjóðarinnar í …
Ísland hefur dregist aftur úr hvað varðar menntunarstig þjóðarinnar í samanburði við önnur lönd mbl.is/Árni Sæberg

Hlutfall þeirra Íslendinga sem hafa lokið framhaldsskólaprófi á aldursbilinu 25 – 34 ára var 69% á Íslandi árið 2008. Þegar menntunarstaða Íslands er borin saman við önnur lönd á þessum mælikvarða þá kemur í ljós að hún er 11% undir meðaltali OECD landa, og Ísland lendir í 29 sæti þegar raðað er eftir árangri.

Þegar staðan er skoðuð fyrir árið 1998 var Ísland í 23. sæti í samanburðinum. Síðan þá hafa fleiri lönd bæst við og flest þeirra lent ofar á listanum heldur en Ísland. Þau lönd sem lenda í næstu sætum fyrir neðan Ísland eru Ítalía og Spánn. En Grikkland er í næsta sæti fyrir ofan með 6% hærra hlutfall. Þessi staða hefur ekki breyst á tímabilinu frá 1998 til 2008.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlega skýrslu OECD um menntamál, Education at a Glance 2010, þar sem má finna tölfræðilegar upplýsingar um stöðu og þróun menntamála í aðildarlöndum OECD. Skýrslan var birt í síðasta mánuði en Íslendingar hafa verið þátttakendur í menntasamstarfi OECD frá upphafi og skýrslan gefur tækifæri til bera stöðu íslensks menntakerfis saman við menntakerfi 33 annarra landa, segir í vefriti menntamálaráðuneytisins.

Í skýrslunni er að finna upplýsingar um menntunarstöðu, útgjöld til menntamála, aðgengi að menntun og skipulagi skólastarfs. Mbl.is birti upplýsingar um útgjöld til mennamála þann 7. september sl.

Með menntunarstöðu þjóðar er átt við hlutfall fólks á aldrinum 25 – 64 ára sem hefur lokið prófi á mismunandi skólastigi, grunn-, framhalds- og háskólastigi. OECD leggur áherslu á að vel menntuð og þjálfuð þjóð sé lykillinn að hagsæld. Menntunarstaðan er mælikvarði á hversu vel menntuð þjóðin er og samanburðurinn á að sýna hversu samkeppnishæfur vinnumarkaður er í alþjóðlegu umhverfi.

Árið 2008 á Íslandi höfðu 36% fólks á þessum aldri ekki lokið neinu prófi eftir grunnskóla, 33% höfðu lokið framhaldsskólaprófi af einhverju tagi, og 31% höfðu lokið fyrstu háskólagráðu. Þegar litið er yfir tímabilið frá 1998 þá hefur orðið talsverð framför í menntunarstöðu íslensku þjóðarinnar.

Árið 1998 höfðu 45% ekki lokið neinu prófi eftir grunnskóla, eða 9% fleiri en tíu árum seinna. Aftur á móti hafði á þessum sama tíma orðið mikil fólksfjölgun, þannig að þrátt fyrir að hlutfallið hafi lækkað þá fjölgaði þeim lítilsháttar sem ekki hafði lokið framhaldsskólaprófi. Hlutfall þeirra sem höfðu lokið háskólaprófi hækkaði um 10% á þessu sama tímabili, úr 21% árið 1998 í 31% árið 2008. En á sama tíma varð allt að því tvöföldun á fjölda skráðra háskólanema. Hlutfall þeirra sem höfðu ekki lokið neinu prófi umfram framhaldsskólapróf stóð hins vegar nokkurn veginn í stað á sama tíma.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert