Reykjavík styður kjarnorkuvopnalausan heim

Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundi borgarstjórnar.
Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundi borgarstjórnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag tillögu borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar um aðild að verkefninu Mayors for Peace. Samtökin hafa það að markmiði að útrýma kjarnorkuvopnum í heiminum fyrir árið 2020.

 Mayors for Peace eru samtök sem stofnuð voru að frumkvæði borgarstjóra í Hiroshima og Nagasaki árið 1982. Jón Gnarr sagði að nú væru um 4100 borgir í 144 löndum aðilar að samtökunum. Hann sagði að sendiherra Japans á Íslandi hefði komið að máli við sig og óskað eftir að Reykjavík gerðist aðili að samtökunum. Jón sagði að mörgum þætti kannski ótrúlegt að hægt væri að útrýma kjarnorkuvopnum. Hann minnti hins vegar á að á sinum tíma hefði mönnum þótt óraunhæft að menn kæmust til tunglsins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Sóley Tómasdóttir, oddviti VG, lýstu yfir stuðningi við tillöguna. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagðist styðja tillöguna, en tók fram að hann væri þeirrar skoðunar að markmiðið um kjarnorkuvopnalausan heim árið 2020 væri algerlega óraunhæft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert