Hætta á grjóthruni og fljúgandi hálka

Séð yfir Siglufjarðarveg og Strákagöng.
Séð yfir Siglufjarðarveg og Strákagöng. mbl.is/www.mats.is

Vegagerðin varar við hættu á grjóthruni á Siglufjarðarvegi og flughálka er í Fljótum í Skagafirði og á fjallvegum á Vestfjörðum. Hálka og hálkublettir er enn víða á vegum þó að hlýnað hafi í veðri.

Á Suðurlandi er hálka á nokkrum leiðum en hálkublettir víða. Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku og einstaka hálkublettir. Á Vestfjörðum er hálka á fjallvegum en hálkublettir víða á láglendi. Flughálka er um Klettsháls, Kleifarheiði, Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði.

Það eru hálkublettir á vestanverðu Norðurlandi en öllu meiri hálka austar. Sem fyrr segir er varað við hættu á grjóthruni á Siglufjarðarvegi og flughálka er í Fljótum.

Á Austurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum en vegir eru auðir á Suðausturlandi. Annars vekur Vegagerðin athygli á því að þó svo að hláni, þá er mikið frost í vegunum eftir kuldana undanfarna daga. Bleytan getur því í fyrstu frosið nokkuð víða á yfirborði þó svo að lofthiti verði vel ofan frostmarks.

Verið er að setja upp vegrið á miðeyju á Reykjanesbraut. Unnið er frá skiltabrúnni fyrir sunnan Breiðholtsbrautarbrúna í átt til norðurs áleiðis niður Mjóddina. Vinstri akrein til norðurs er lokuð meðan á vinnu stendur. Vinnusvæðið er vel afmarkað og merkt en búast má við að vinnan standi í nokkrar vikur.

Tafir á Reykjanesbraut

Í dag verður unnið við gerð umferðareyju á Reykjanesbraut við Fitjar. Vinna hófst í birtingu og verður lokið eftir hádegi. Búast má við smávægilegum töfum á meðan á verkinu stendur. Ökumenn eru beðnir að sýna aðgát og fara eftir merkingum á vinnusvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert