Réttarhöldin verða opin almenningi

Gunnar Rúnar Sigurþórsson við þingfestingu málsins.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson við þingfestingu málsins. mbl.is/Golli

Réttarhöldin yfir Gunnari Rúnari Sigurþórssyni, sem ákærður er fyrir morðið á Hannesi Þór Helgasyni verða ekki lokuð almenningi, líkt og verjandi hans fór fram á. Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Yfirmat vegna geðrannsóknar var einnig lagt fram og var komist að sömu niðurstöðu og áður, að Gunnar Rúnar sé ósakhæfur.

Gunnar Rúnar, sem er 23 ára Hafnfirðingur, hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því seint í ágúst en hann játaði morðið, sem framið var á heimili Hannesar í Hafnarfirði, við yfirheyrslur hjá lögreglu í byrjun september.

Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars, fór fram á að það við þingsetningu málsins að þinghald yrði lokað til verndar Gunnari Rúnari og fjölskyldu hans. Sandra Baldvinsdóttir, dómari málsins, tók sér umhugsunarfrest og kvað upp úrskurð sinn í dag, hafnaði kröfunni og verður þinghald því opið.

Samkvæmt ákæruskjali er Gunnar Rúnar ákærður fyrir að hafa veist að Hannesi á heimili hans og banað með því að stinga hann ítrekað í brjóst, bak og hendur með hnífi. Gekk hnífurinn meðal annars í hjarta, lungu og nýra. Krafist er fangelsisrefsingar en til vara að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Fjölskylda Hannesar Þórs Helgasonar var viðstödd réttarhöldin í dag
Fjölskylda Hannesar Þórs Helgasonar var viðstödd réttarhöldin í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert