Verði með munnkörfu utandyra

Dalmatíuhundur. Myndin er úr safni.
Dalmatíuhundur. Myndin er úr safni.

Mál hunds sem réðist á bréfbera í Mosfellsbæ í gær er nú á borði heilbrigðiseftirlits bæjarins. Farið verður fram á það við eigendurna í dag að hundurinn verði mýldur til að byrja með, þ.e. að hundurinn verði með munnkörfu utandyra á meðan málið er í vinnslu.

„Þegar hundar eru einu sinni búnir að bíta þá eiga þeir að vera með munnkörfu utandyra,“ segir Hafdís Óskarsdóttir, hundaeftirlitsmaður Mosfellsbæjar, í samtali við mbl.is.

Konan sem varð fyrir árásinni tvíbrotnaði á ökkla og bíður nú eftir því að komast í aðgerð. Þá hlaut hún bitáverka á kvið þegar dalmatíuhundurinn réðist á hana. Hundinum, sem var í bandi, tókst að rífa sig lausan frá dóttur eigendanna þegar bréfberinn var að störfum í gær.

Sjúkralið kom á vettvang og flutti það konuna á slysadeild. Þá var lögregla einnig kölluð til og ræddi hún við eigendurna. Jafnframt var haft samband við hunda- og heilbrigðiseftirlitið.

Verði aflífaður eða fari í atferlismat

Hafdís segir að málið sé nú til skoðunar. Þegar niðurstaða liggi fyrir þá verði annað hvort gerð krafa um að hundurinn verði aflífaður eða hann mýldur þar til búið verði að vinna í hans málum, en það komi ávallt til greina að hundar fari í atferlismat. Komi hundurinn illa út úr því mati þá komi ekki annað til greina en að svæfa dýrið.

Aðspurð segist Hafdís ekki vita til þess að hundurinn hafi ráðist á og bitið aðra manneskju.

Varðandi framhaldið segir hún að það velti ekki síður á því hvað hundaeigendurnir vilji gera, en þeir muni fá nokkurra daga umþóttunarfrest.

„Það er nóg fyrir suma eigendur að hundurinn bíti. Þá vilja þeir ekki að hundurinn geri þetta aftur og það tekur oft málin í sínar hendur og lætur svæfa hundinn sjálft.“

Hafdís segir að hún muni ræða málið við eigendurna í dag, sem hún segir að séu miður sín vegna málsins. Hún ítrekar að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir að svo stöddu en það muni ekki líða langur tími þar til hún fæst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert