Hrókurinn teflir í Ittoqqortoormiit

Ljósmynd/Hrafn Jökulsson

Rúmlega fjörutíu ungmenni tóku þátt í páskaeggjamóti Bónus í Ittoqqortoormiit á Grænlandi í dag. Í tilkynningu frá Hróknum segir að Róbert Lagerman hafi stjórnað þar af sinni alkunnu lipurlegu festu og naut hann liðsinnis Knud Eliassen sem snaraði völdum setningum yfir á grænlensku.

„Konkordie Simonsen var skipuð aðstoðarskákstjóri, en þessa knáa 10 ára stúlka stóð sig með einstakri prýði og steig ekki feilspor í utanumhaldi og innslætti úrslita einstakra skáka,“ segir í tilkynningunni.

Gleðin og eftirvæntingin var allsráðandi í Ittoqqortoormiit í dag. Margar skemmtilegar skákir voru tefldar og segir í tilkynningunni að dagljóst sé að skákin hafi náð traustri fótfestu hér á 72. breiddargráðu. Allir þátttakendur voru svo leystir út með páskaeggjum í boði Bónus. Að móti loknu mátti sjá glaðbeitt börn á heimleið gæða sér á páskaeggjum í hífandi stórhríð.

Ljósmynd/Hrafn Jökulsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert