Salerni verða kynjaskipt á Þjóðhátíð

Salerni verða kynjaskipt á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár.
Salerni verða kynjaskipt á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Salerni í Herjólfsdal verða kynjaskipt í ár og þar verður vakt allan sólarhringinn á þjóðhátíð sem fer fram í Vestmannaeyjum um helgina. Þá hafa einnig verið keyptar fleiri eftirlitsmyndavélar og verða ákveðin álagssvæði í dalnum lýst upp. Þetta segir Hörður Grettisson, en hann situr í þjóðhátíðarnefnd.  

Verslunarmannahelgin er framundan og geta landsmenn sótt hinar ýmsu útihátíðir. Margt er í boði og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þegar fólk kemur saman fylgja stundum pústrar, slagsmál eða jafnvel afbrot. Umsjónarmönnum hátíðanna er skylt að hafa gæslu á svæðinu.

Annað kvöld fer Húkkaraballið fram, sem alltaf er haldið á fimmtudeginum fyrir verslunarmannahelgina og má því búast við að gestir fari að streyma á svæðið á morgun. Sumar hátíðir hefjast strax á fimmtudeginum en aðrar ekki fyrr en á föstudag.

Myndavélakerfið hefur sannað sig

„Við erum með mörg hundruð manns í gæslu og eru yfir hundrað manns á vakt í dalnum á okkar vegum á álagstímanum milli tíu um kvöldið og fjögur um nóttina,“ segir Hörður í samtali við mbl.is, aðspurður um gæslu á þjóðhátíð. Þjóðhátíðarnefnd hefur lögreglumenn, hjúkrunarfræðinga, lækna, bráðatækna, sálfræðing og fleiri á sínum snærum til að sinna gæslunni.

Í dalnum eru einnig tveir sjúkrabílar í viðbragðsstöðu, komi eitthvað upp á. Sjúkraskýli er í um 300 metra fjarlægð frá danspallinum og þá hefur verið sett upp öryggismyndavélakerfi sem hefur verið nytsamlegt síðustu ár. Hörður segir að kerfið hafi sannað gildi sitt og hafi lögregla meðal annars stuðst við myndir úr vélunum við rannsóknir á málum síðustu ár.

Í ár var ákveðið að hafa salerni í Herjólfsdal kynjaskipt í fyrsta skipti og þar verður einnig gæsla allan sólarhringinn. Þessi breyting er að sögn Harðar liður í því að sinna gæslunni betur og kom hún til eftir ábendingu til skipuleggjenda hátíðarinnar. 

Í febrúar árið 2012 var karlmaður dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu á útisalerni á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þröngvaði hann konuna til samræðis og annarra kynferðismaka. 

Þá er einnig starfandi áfallateymi og ásamt ýmsu öðru sem er hluti af öryggisgæslu í tengslum við hátíðina. „Við teljum okkur vera með góða gæslu og erum stolt af henni,“ segir Hörður.

Tíu komu vegna kynferðisafbrota

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að samtökin hafi ekki komið beint að gæslu eða boðið upp á þjónustu á útihátíðum undanfarin ár.

Aðspurð segir Guðrún að samtökin hafi ekki vakið sérstaklega athygli á sér fyrir helgina en bendir á að kynferðisbrot eigi sér stað allt árið. „Þær sem hafa kjarkin og kraftinn leita sér strax hjálpar og fara á neyðarmóttöku en flestar koma venjulega löngu eftir að brotin eru framin,“ segir Guðrún.

Árið 2013 leituðu tíu konur til Stígamóta vegna kynferðisafbrota á útihátíðum en fimm árið áður. 

Gestir taka gæslunni vel

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, verður með gæslu á hátíðinni Ein með öllu á Akureyri um helgina. Að sögn Sigríðar Þórisdóttur, leiðbeinanda hjá samtökunum, ganga nokkrir sjálfboðaliðar um hátíðina, aðallega á kvöldin og fram á nótt.

Hún segir að gestir hafi tekið gæslunni vel síðustu ár en Aflið hefur komið að gæslunni frá árinu 2002. „Fólk vill ræða málin og er forvitið um starfsemina. Þá opnast líka oft fyrir mál þegar fer að líða á nóttina,“ segir Sigríður.

Aðspurð segir Sigríður að samtökin hafi ekki vakið athygli á sér fyrir verslunarmannahelgina en þátttaka samtakanna sé fastur liður í hátíðinni Einni með öllu.

Landsmenn geta valið um hinar ýmsu útihátíðir um helgina.
Landsmenn geta valið um hinar ýmsu útihátíðir um helgina. Halldór Sveinbjörnsson
Frá Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.
Frá Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert