„Allt á suðupunkti“ á deildinni

Eftir að hafa glímt við krabbamein um átta ára skeið hefur Kári Örn Hinriksson mikla reynslu af starfi krabbameinsdeildar Landspítalans og hann hefur þungar áhyggjur af ástandinu sem þar hefur skapast ásamt því í hvað stefnir. Sparnaðurinn stefni sjúklingum beinlínis í voða.

Kári Örn, sem er 25 ára gamall og hefur haldið úti vinsælu bloggi í veikindunum, greindist með krabbamein í nefholi fyrir átta árum síðan og hefur barist við meinið með hléum síðan þá. Hann nefnir sem dæmi að sjúklingar með veikt ónæmiskerfi eftir lyfjagjöf þurfi nú að fara á bráðamóttöku í Fossvoginum kenni þeir sér meins. Ekki sé í boði að leita beint til krabbameinsdeildar og því þurfi þeir að vera í kring um aðra sjúklinga sem geti verið stórhættulegt.

Framtíðina segir hann ekki líta vel út verði ekki gripið í taumana án tafar, aldursamssetning þjóðarinnar sé að breytast og fjölmenn kynslóð sé að eldast sem kalli á aukna þjónustu. Aftur á móti sé að vaxa úr grasi kynslóð lækna sem geti ekki hugsað sér að starfa á Íslandi vegna lélegrar aðstöðu, lágra launa og mikils starfsálags.

mbl.is ræddi við Kára Örn í dag en hann flutti ræðu á Afmælismálþingi Krafts um ungt fólk og krabbamein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert