Gleymdist fyrir utan Melabúðina

Hundurinn er í góðu yfirlæti á skrifstofu í Melabúðinni núna.
Hundurinn er í góðu yfirlæti á skrifstofu í Melabúðinni núna. ljósmynd/Pétur Alan Gudmundsson

„Það var kona sem var að versla hjá okkur áðan sem sá hundinn bundinn fyrir utan þá og sá hann svo aftur um klukkan átta þegar við lokum og hafði því samband við okkur,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, verslunarstjóri Melabúðarinnar, sem deildi mynd á Facebook fyrir skemmstu af hundi sem gleymdist fyrir utan verslunina í kvöld.

Hundurinn er ómerktur, en Pétur deildi myndinni í von um að finna eigandann. Hann segir konuna sem hafði samband við verslunina hafa haldið að hundurinn gæti hafa verið fyrir utan í eina til tvær klukkustundir.

Segir hann eiganda, eða einhvern sem hafi verið að passa hundinn, líklegast hafa gleymt honum fyrir utan þegar innkaupin voru gerð í versluninni. Hann sé þó hinn rólegasti, og sé nú kominn í gott yfirlæti á skrifstofu í Melabúðinni.

„Hann er voðalega ljúfur og góður,“ segir Pétur. „Ég er hundamaður sjálfur svo ég passa hann og honum líður bara vel. Ég verð hér áfram með hann þar til ég heyri vonandi í eigandanum en annars tek ég hann bara með mér heim og hann getur verið þar þangað til hann verður sóttur.“

Ef lesendur hafa upplýsingar um eiganda hundsins geta þeir haft samband við Pétur í síma 896-2696.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert