Stefna Íslands afar óljós

Náttúruverndarsamtök Íslands segja að stefna Íslands varðandi að draga úr …
Náttúruverndarsamtök Íslands segja að stefna Íslands varðandi að draga úr losun CO2 sé óljós. mbl.is/Golli

Í þeirri sóknaráætlun í loftslagsmálum sem þrír ráðherra kynntu í morgun er bara að finna eitt magnbundið og tölusett markmið. Nefnilega að „... að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) um 40% til 2030 miðað við 1990 frá sjávarútvegi.“ Engin slík markmið er að finna um losun frá landbúnaði eða samgöngum. Þetta kemur fram í athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna sóknaráætlunarinnar.

Frétt mbl.is: Kynna sóknaráætlun í loftslagsmálum

Stefna Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í París er afar óljós, segir í tilkynningu félagsins. Ísland fylgir Evrópusambandinu sem stefnir að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 samanborið við 1990. Þess í stað er sagt að Ísland vilji taka á sig byrðar sem geti talist réttmætar (e. fair share).  

Náttúruverndarsamtök Íslands telja einboðið að ríkisstjórn Íslands að lýsi því yfir afdráttarlaust að stefnt sé að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við 1990 - óháð markmiði Evrópusambandsins. Ennfremur telja Náttúruverndarsamtök Íslands brýnt að ríkisstjórnin marki þá stefnu að Ísland verði kolefnishlutlaust (e. carbon neutral) eigi síðar en árið 2050.

Þá krefjast samtökin þess að hætt verði við öll áform um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu enda ljóst að þau áform samræmast á engan hátt því markmiði að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.  

Samgöngumarkmiðið það sama

Hvað samgöngur varðar er ítrekað markmið frá 2010 um að „... árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10% og mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að því að ná því marki.” Segja Náttúruverndarsamtökin að ekki sé að finna neitt markmið um hvert þetta hlutfall skuli vera árið 2030 sem er afar bagaleg í ljósi þess að þetta árið seljast nýir bílar í svipuðu magni og fyrir hrun. Þeir bílar sem koma á götuna í dag eru að miklum hluta til alltof eyðslufrekir og þeir verða að meirihluta til enn í notkun árið 2030.

Með aðgerðaleysi sínu hefur ríkisstjórn Íslands fest stóran hluta þess bílaflota sem bætist við næstu árin í við losun sem er langt umfram sjálfbær mörk. Þetta er ekki sókn heldur er sett í bakkgírinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert