Boðar umtalsverðar breytingar

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Það er skýrt í huga mínum að hér eigi fólk að geta valið um þrenns konar búsetuform, þ.e. eignar-, leigu-, eða búsetuíbúðir. Og er frumvarp þetta mikilvægur hlekkur til að slíkt val geti orðið fólki raunverulegt,“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á Alþingi í dag.

Sagði ráðherrann þetta er hún mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, en við gerð frumvarpsins var haft samráð við fulltrúa húsnæðissamvinnufélagana Búseta, Búseta á Norðurlandi og Búmanna.

Meginmarkmið þessa frumvarp er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa hér á landi í samræmi við það markmið að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samráði við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform.

„Frumvarpið hefur auk þessa markmiða að auka vernd búseturéttarhafa, skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Ennfremur er frumvarpinu ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga á Íslandi á sama tíma og leitast er við að auka svigrúm fyrir fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum ákvörðunarvald um ýmis atriði sem kunna að hafa áhrif á rekstur þeirra í samþykktum þeirra,“ sagði Eygló jafnframt í ræðu sinni.

„Ég tel að hér sé verið að gera umtalsverðar breytingar sem munu leiða til þess að á næsta ári, afgreiði þingið þetta mál, verði fleiri hundruð íbúðir byggðar sem byggjast á búseturétti og húsnæðissamvinnufélagslöggjöfinni,“ sagði Eygló á þingi og benti á að innan veggja ráðuneytis hennar sé nú unnið hörðum höndum að fleiri frumvörpum sem lögð verða fyrir þingið á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert