Börn í 1. bekk hafa forgang

Börn að leik á frístundaheimilinu Árseli.
Börn að leik á frístundaheimilinu Árseli. mbl.is/Árni Sæberg

Enn vantar 185 starfsmenn í um 90 stöðugildi á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar í vetur. Fyrir um viku síðan vantaði 261 starfsmann til að fylla 127 ómönnuð stöðugildi en samkvæmt upplýsingum frá borginni er fólk ráðið til starfa á hverjum degi. Uppi var svipuð staða í fyrra en jafnan er komið jafnvægi á mönnun frístundaheimila um miðjan september.

Frétt mbl.is: Þarf að ráða 272 starfsmenn

Frá skólabyrjun hefur umsóknum um frístundaheimili fjölgað um 400 og hefur það áhrif á þörfina fyrir starfsfólk. Um 3.240 börn eru komin inn á frístundaheimilin í vetur en um 1.100 eru enn á biðlista. Þar til frístundaheimilin hafa verið fullmönnuð hafa börn í 1. bekk grunnskóla forgang um innritun.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni eru flestir starfsmenn frístundaheimila í borginni háskólanemar sem skipuleggja nám sitt og störf í takt við stundatöflu sína, því megi búast við að staðan verði betri í næstu viku.

Opnunartími frístundaheimila í Reykjavík verður styttur um 15 mínútur í vetur en opið verður til klukkan 17:00 í stað 17:15 líkt og áður var. Fengust þær upplýsingar hjá borginni að breytingin væri gerð til samræmis við leikskóla og vegna rekstrarhagræðis. 

Frétt mbl.is: Þvingar foreldra fyrr heim úr vinnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert