Áframhaldandi vætutíð í kortunum

mbl.is/Styrmir Kári

Von er á áframhaldandi vætutíð næstu daga sunnan- og vestanlands, en þó styttir upp annað kvöld að því er fram kemur í spá Veðurstofunnar. Heldur hefur þó kólnað norðan- og austanlands, en þar var heiðskírt í nótt og verður áfram í dag. 

Austanátt, 5-15 m/s, verður á landinu í dag. Hvassast verður með suðurströndinni og hvassast allra syðst í fyrstu. Rigning eða súld verður um landið sunnanvert, en hægviðri á Norður- og Austurlandi og léttskýjað. Austlæg átt, 5-10 m/s, verður á morgun og rigning í flestum landshlutum. Hiti verður á bilinu 2 til 8 stig í dag, en vægt frost norðaustan til. Þar mun þó hlýna nokkuð á morgun.

Veðurvefur mbl.is

Engar markverðar breytingar virðast sjáanlegar á veðrinu næstu daga, þó að heldur muni kólna fram að helgi með skammvinnri norðanátt á föstudag. 

„Það hefur varla farið fram hjá neinum að mjög hlýtt hefur verið í desember. Það sem af er mánuði er meðalhitinn í Reykjavík 7,42 gráður, sem er 6,41 gráðu hlýrra en á árunum 1961 til 1990,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings.

Svipaða sögu er síðan að segja af Akureyri þar, sem meðalhitinn það sem af er desember er 5,75 gráður og 5,03 á Kirkjubæjarklaustri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert