Ugla Hauks valin besti kvenleikstjórinn

Ugla var valin besti kvenleikstjórinn af Directors Guild of America …
Ugla var valin besti kvenleikstjórinn af Directors Guild of America fyrir myndina How far she went, sem fjallar um samband ömmu og barnabarns hennar. Ljósmynd/How far she went

Ung íslensk kvikmyndagerðarkona, Ugla Hauks, hlaut nú í vikunni verðlaun bandarísku leikstjórasamtakanna, The Directors Guild of America, sem besti kvenleikstjórinn í hópi leikstjórnarnema.

Ugla hlaut verðlaunin fyrir myndina „How far she went“, sem byggir á sögu Mary Hood og fjallar um samband ömmu og barnabarnsins sem hún annast. Spenna er á milli þeirra og stúlkunni leiðist. Hún stingur því af að hitta stráka, sem reynast vafasamir einstaklingar, og amman grípur þá inn í atburðarásina með athyglisverðum afleiðingum.

Faðir Uglu, Haukur Ingi Jónasson, birti fréttir af verðlaununum á Facebook-síðu sinni. „Þegar ég áttaði mig á að þetta eru virt verðlaun samtaka virtustu kvikmyndaleikstjóranna þá varð ég mjög stoltur af henni,“ segir Haukur Ingi í samtali við mbl.is. „Þetta kom mér hins vegar ekki á óvart, því hún er merkileg manneskja hún Ugla og með sterkan vilja og mikinn faglegan metnað.“

Ugla útskrifaðist úr Columbia-háskólanum í New York í leikstjórn og handritagerð síðasta vor og er How far she went útskriftarverkefni hennar, en unnusti Uglu, Markus Englmair, sá um kvikmyndatökuna og litgreiningu.

Haukur Ingi segir myndina hafa fengið tvenn verðlaun á Columbia Film Festival. „Hún fékk bæði áhorfendaverðlaunin og var kosin besta myndin af nemendum Columbia-háskólans,“ segir hann.  Þá var „How far she went“ sýnd nú í haust á Nordisk Panorama-kvikmyndahátíðinni í Malmö í Svíþjóð. „Myndin þykir afburðagóð ekki bara í leikstjórn, heldur líka er hún mjög vel unnin varðandi litgreiningu, myndatökur og annað slíkt,“ segir Haukur Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert