Bæjarbúar fá sent árskort í laugina

Sandgerði. Bæjaryfirvöld vilja hvetja íbúa til aukinnar hreyfingar með því …
Sandgerði. Bæjaryfirvöld vilja hvetja íbúa til aukinnar hreyfingar með því að hætta að rukka þá fyrir not af sundlauginni. Kort/map.is

Íbúar í Sandgerðisbæ munu ekki þurfa að borga fyrir að fara í sund í bænum á næsta ári. Frá þessu var greint í gær, en tillagan fékk einróma samþykki á fundi bæjarstjórnar.

Sigrún Arnardóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, segir í samtali við mbl.is að bæjarstjórn telji að ekkert mæli gegn því að það verði ókeypis í sund fyrir bæjarbúa, þó að aðrir gestir haldi áfram að borga. „Við munum send kort á íbúa og það má því segja að verið sé að gefa fólki árskort.“

Frétt mbl.is: Frítt í sund fyrir Sandgerðinga

Á þessum sama fundi var einnig samþykkt að ókeypis yrði að fá lánaðar bækur á bókasafni bæjarins.

Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa verið að leggja aukna áherslu á lýðheilsumál og segir Sigrún að með því að hætta að rukka bæjarbúa fyrir sundferðina sé verið að hvetja fólk til hreyfingar. „Síðan erum við með þessi mannvirki sem eru að einhverju leiti vannýtt, þannig að það má segja að þetta sé tvíþætt að einhverju leyti.“

Sigrún segir algjöran einhug hafa ríkt í bæjarstjórn um tillöguna, sem hefur vakið mikla almenna ánægju. „Við höfum fengið mikið af viðbrögðum. Við erum með frétta- og upplýsingasíðu og mér sýnist að fólk sé almennt mjög ánægt með þetta.“

Sandgerðisbúar eru ekki einir um að nota laugina, því fólk úr nágrannasveitarfélögum notar hana líka og þá fer þeim ferðamönnum sem fara þar í sund einnig fjölgandi.

Spurð hvort bærinn verði af miklum tekjum með því að hætta að rukka bæjarbúa fyrir sundferðina, segir hún svo ekki vera. „Við áætlum að við verðum af tekjum upp á eina til eina og hálfa milljón króna á ári.“

Þá upphæð séu bæjaryfirvöld alveg til í að gefa eftir. „Ég tel líka að ávinningurinn geti verið umtalsverður ef að fólk nýtir sér þetta,“ segir hún og bætir við að fylgst verði með hvort  aðgerðirnar hafi tilætluð áhrif og umferð í sundlaugina aukist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert