Slökkviliðsmenn hjóluðu í sólarhring

Ágúst segir salinn hafa oftast verið 70-80% fullan nema yfir …
Ágúst segir salinn hafa oftast verið 70-80% fullan nema yfir nóttina. mbl.is/Árni Sæberg

Sólarhringsátaki slökkviliðsmanna á spinning-hjólum í World Class í Smáralind lauk klukkan 20 í gærkvöldi með fullum sal af fólki. Með átakinu var verið að safna fé fyrir Mæðrastyrksnefnd.

„Þetta gekk ótrúlega vel og þátttakan var alveg frábær. Við vissum að málefnið var gott en maður rennir oft svolítið blint í sjóinn með þátttöku í svona. En salurinn var alltaf 70-80% fullur nema um nóttina,“ segir Ágúst Guðmundsson slökkviliðsmaður í samtali við mbl.is.

Hann segir það ekki liggja fyrir hversu mikið safnaðist þar sem það á eftir að taka það saman. Öllum var frjálst að taka þátt í átakinu og kostaði 1000 krónur að fara í tímann. Einnig er hægt að leggja stærri framlög inn á reikning 0515-04-250040, kt. 690500-2130. 

Hann segir það hafa verið frábæra tilfinningu að klára hjólreiðarnar í gærkvöldi. „Það er alltaf gaman að klára verkefni, sérstaklega þegar svona frábært málefni hangir á spýtunni.“

Ágúst var síðan ásamt fleirum sem tóku þátt mættur á vakt í morgun og segir hann suma auma en að allir séu hressir. Segir hann hjólreiðarnar hafa tekið aðeins á, sérstaklega á fæturna. „En það eru allir heilir og glaðir,“ segir Ágúst.

Fyrri frétt mbl.is: Kófsveittir slökkviliðsmenn hjóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert