Óvissuferð sköpunarinnar

Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona, skrifaði Skapandi ferli með kennara og nemendur …
Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona, skrifaði Skapandi ferli með kennara og nemendur í listnámi í huga, en segir bókina líka fyrir alla þá sem vilja fara ótroðar slóðir og leggja af stað í sköpunarferðalag. Eggert Jóhannesson

Bókin Skapandi ferli – Leiðarvísir er ætluð þeim sem vilja fara ótroðnar slóðir og leggja af stað í hvers kyns sköpunarferðalög. Höfundurinn, Eirún Sigurðardóttir, kynnir til sögunnar aðferðafræði sem hún byggir á þekkingu sinni og reynslu sem myndlistarkona og stundakennari við LHÍ og á áratuga starfi á mörkum listgreina.

Hvaða ferli liggur að baki listaverki? Kom hugmyndin kannski eins og af himnum ofan og laust fyrirvaralaust niður í koll listamannsins? Sjaldnast eða aldrei að mati Eirúnar Sigurðardóttur, myndlistarkonu, sem jafnframt er hluti Gjörningaklúbbsins og stundakennari við Listaháskóla Íslands. „Aðdragandinn er mislangt og misflókið skapandi ferli, sem getur tekið ótrúlegum og óvæntum breytingum þar til verkið er fullskapað, til dæmis myndverk eða leikverk. Sama á raunar við um mörg mannanna handverk og hugverk ef því er að skipta,“ segir hún.

Bókin hennar, Skapandi ferli – Leiðarvísir, lét lítið yfir sér í jólabókaflóðinu og var aðeins dreift á tvo staði: Mengi við Óðinsgötu og Flóru á Akureyri. Viðfangsefnið; aðferðafræði í skapandi ferli, hljómar enda nokkuð sérhæft og kann að virðast handan skilnings venjulegra bókaorma. En er það svo?

„Þótt ég hafi einkum skrifað bókina með kennara og nemendur í listnámi í huga, er hún líka fyrir alla þá sem vilja fara ótroðnar slóðir og leggja af stað í hvers kyns sköpunarferðalög,“ segir Eirún, sem í tvo áratugi hefur starfað á mörkum listgreina; myndlistar og sviðslistar.

Til að fyrirbyggja spekileka

„Mín vinna og hugmyndir geta endað í hvaða formi sem er og ég fullyrði að því sé eins farið um aðra í skapandi greinum. Ég byggi bókina á þeim grunni og sem stundakennari við Listaháskóla Íslands, þar sem ég hef aflað mér 15 ára reynslu í kennslu á margvíslegum námskeiðum, oftast á námskeiðinu Leiðir og úrvinnsla, sem er inngangskúrs í B.A.-myndlistarnámi. Ásamt samkennara mínum, Hugin Þór Arasyni, hef ég haft tækifæri til að þróa námskeiðin og því ákvað ég að taka saman þekkinguna sem ég hafði safnað í sarpinn og búa til aðgengilegan leiðarvísi. Einnig vakir fyrir mér að fyrirbyggja spekileka, sem óhjákvæmilega verður þegar listamenn kenna í stuttan tíma og halda svo sína leið. Eins og efalítið flestir hef ég orðið fyrir áhrifum frá kennurunum mínum gegnum tíðina. Ég nýti mér margt frá þeim í minni kennslu og þróa áfram með nemendum mínum. Kennslan sem slík er ekki síður skapandi ferli en listin,“ segir Eirún og tekur að sumu leyti undir orð listamannsins Magnúsar Pálssonar, sem hún vitnar til í formála bókarinnar. Hann fullyrti að kennsla væri geggjaðasta listgreinin. „Kennsluaðferðir geta tekið á sig ýmsar myndir og í þeim felst ákveðin sköpun ef þær hafa ekki verið reyndar áður.“

Áður en Eirún leggur af stað í sköpunarferðalagið með lesendum sínum gefur hún þeim nauðsynlegt veganesti. „Við upphaf skapandi ferlis er mikilvægt að segja já við öllum hugdettum sama hversu galnar þær kunna að virðast, treysta á reynslu sína og innsæi og leggja aldrei af stað með fyrirfram gefna niðurstöðu hvort sem maður er einn á ferð eða með hópi.“

Veganesti og „sköpunarverkir“

Til þess að hjálpa lesendum á leiðarenda reisir Eirún fjórar huglægar vörður. „Nokkurs konar kennileiti,“ útskýrir hún. „Fyrsta varðan nefnist Kveikjur, önnur Hugmyndavinna, þriðja Skissa í efni og fjórða Úrvinnsla. Fólk getur þvælst mislengi kringum þessar vörður, sumir dvelja lengst við kveikjurnar í leit að einhverju sem þeim finnst spennandi, aðrir við hugmyndavörðuna áður en þeir vinda sér í að skissa í efni og svo eru þeir sem verja mestum tíma í úrvinnsluna. Á ferðalaginu lærir fólk á sína „sköpunarverki“ rétt eins og maraþonhlaupari lærir smám saman á líkama sinn, hann veit til dæmis að eftir 10 kílómetra hlaup fær hann verki í mjöðmina.“

Af langri reynslu þekkir Eirún hversu mörgum hættir til að missa trúna á sjálfa sig í sköpunarferlinu og upplifa sig rammvillta í þokunni. Meira að segja á lokasprettinum fyllist margir efasemdum og finnst verk sín skyndilega rosalega léleg. Markmið bókarinnar segir hún ekki síst vera að stappa stálinu í ferðalanga og koma þeim, fullum sjálfstrausts, á leiðarenda með þar til gerðum hjálpartækjum. Vörðurnar eru lykiltólin.

Eirúnu verðurr tíðrætt um mengi, sem hún skýrir sem einstaklingsbundið safn af áhuga, eiginleikum og færni. „Þeir sem sækjast eftir skapandi ferli eiga það sameiginlegt að vilja uppgötva eitthvað nýtt. Allir eru með einhverja reynslu eða þekkingu í bakpokanum sínum; kunna eða vita eitthvað, og geta nýtt sér vörðurnar fjórar. Ekkert er ómerkilegra en annað, hvort sem áhuginn hverfist um rauðu ástarsögurnar eða forna búskaparhætti. Aðalatriðið er að finna hvar hjartað slær, virkja og fjalla um það sem maður hefur þekkingu og áhuga á og leggja ótrauður upp í óvissuferð. Og vera opinn fyrir því sem gerist og þeim sem maður kynnist á leiðinni. Kveikjurnar geta alls staðar sprottið upp, jafnt í hversdagslegum atvikum sem og samtölum eða bara bulli með vinum sínum.“

Góðir hlustendur

Eirún leggur sérstaka áherslu á mikilvægi samtalsins í skapandi ferli og að eiga sér góðan hlustanda, helst fleiri en einn. „Til að mynda kennara, sem dæma ekki, heldur hvetja og styrkja,“ segir hún og víkur talinu aftur að vörðunum – leiðarvísunum fjórum:

„Fyrstu tvær vörðurnar eru í eðli sínu óáþreifanlegar en þó má fá betri yfirsýn með því að skrá allt í skissubók. Þegar neistinn hefur kviknað þarf að halda glóðinni heitri undir næstu vörðu, Hugmyndavinnuna, og nýta hann í rannsóknarvinnuna sem í hönd fer. Eftir að hugmyndin hefur nokkurn veginn fest sig í sessi og verið skoðuð frá ýmsum sjónarhornum, hrist og hrærð til að komast að kjarnanum, heldur vinnan áfram við vörðuna Skissur í efni, sem felst í verklegum tilraunum. Hugmyndin verður ekki lengur huglæg, heldur er hún virkjuð í efni og hefur tekið á sig form þegar komið er að fjórðu og síðustu vörðunni Úrvinnslunni. Þar þurfa ferðalangar að staldra við og velta fyrir sér spurningum á borð við hvaða efnislega skissa virki best og hvaða efni og aðferðir komi hugmyndinni, tilfinningunni og áhrifunum best til skila,“ útskýrir Eirún í eins stuttu máli og henni er unnt. Skapandi ferli er ekki svo auðvelt að útskýra í örfáum orðum. Þess vegna skrifaði hún bókina Skapandi ferli – Leiðarvísir.

List í mörgum miðlum

Eirún Sigurðardóttir útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1996 og hóf sama ár að starfa með Gjörningaklúbbnum.

Hún stundaði framhaldsnám við Hochshule der Künste Berlin og lauk diplómu á M.A. stigi í hagnýtri jafnréttisfræði frá HÍ árið 2014.

Hún vinnur listaverk sín í alla þá miðla og efni sem þjóna hugmyndum hennar hverju sinni, en þær eiga gjarnan snertifleti við pælingar um val, mótun og samfélag út frá kynjafræðilegum vinkli.

Eirún hefur verið stundakennari við myndlistardeild LHÍ frá 2001, en í vetur kennir hún á sviðshöfundabraut skólans.

Eirún gefur sjálf út Skapandi ferli – Leiðarvísi með styrk frá Starfsþróunarsjóði akademískra starfsmanna við LHÍ árið 2014. Bókin er til í takmörkuðu upplagi, en verður prentuð eftir þörfum. Hægt er að panta hana gegnum heimasíðu höfundar: www.eirunsigurdardottir.net

Merkilegar vörður. Til þess að hjálpa lesendum á leiðarenda í …
Merkilegar vörður. Til þess að hjálpa lesendum á leiðarenda í skapandi ferli reisir Eirún fjórar huglægar vörður. „Nokkurs konar kennileiti,“ segir hún.
Upphafið. Við upphaf skapandi ferlis er mikilvægt að treysta á …
Upphafið. Við upphaf skapandi ferlis er mikilvægt að treysta á neistann, reynslu sína og innsæi.
Kveikjur. Allir eru með eitthvað í bakpokanum og þar geta …
Kveikjur. Allir eru með eitthvað í bakpokanum og þar geta leynst kveikjur sem viðkomandi hefði aldrei grunað að gætu orðið grunnurinn að einhverju meira og stærra.
Hrist eða hrært? Það getur tekið góðan tíma fyrir hugmynd …
Hrist eða hrært? Það getur tekið góðan tíma fyrir hugmynd að ná að setjast.
Bókin er ætluð þeim sem vilja fara ótroðnar slóðir og …
Bókin er ætluð þeim sem vilja fara ótroðnar slóðir og leggja af stað í hvers kyns sköpunarferðalög.
Bókin Skapandi ferli - Leiðarvísir er ætluð þeim sem vilja …
Bókin Skapandi ferli - Leiðarvísir er ætluð þeim sem vilja fara ótroðnar slóðir og leggja af stað í hvers kyns sköpunarferðalög.
Forsíða bókarinnar Skapandi ferli.
Forsíða bókarinnar Skapandi ferli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert