Beinir því til fólks að gæta sín

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi við Vitt­us Qujaukit­soq, utanríkisráðherra Grænlands, í síma í gær. „Ég hafði samband við hann í gær og við fórum yfir þetta erfiða mál. Grænlendingar eru algjörlega miður sín yfir þessum atburðum og stjórnvöld þar hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða okkur,“ segir Guðlaugur.

Hvað fór ráðherrunum á milli?

„Við fórum svona svolítið yfir praktísk málefni; hann lagði mikla áherslu á það að þeir væru tilbúnir til að gera allt sem þeir gætu til að hjálpa. En þetta voru svona ákveðnir hlutir eins og með tungumálin og annað slíkt sem við vorum að ræða, því sumir skipverjar, ekki þeir sem liggja undir grun, voru ekki allir talandi á ensku og það skiptir máli að allt það sem að þeim málum snýr, að þeir hlutir séu í eins góðum málum og hægt er.“

mbl.is: Hugur Grænlendinga hjá íslensku þjóðinni

Guðlaugur segir hvarf Birnu Brjánsdóttur eðliega hafa vakið sterkar tilfinningar hjá íslensku þjóðinni en fólk megi gæta sín á því að koma ekki fram með meiðandi hætti.

„Grænlendingar eru okkar nánustu grannar og það hefur mikið vinarþel ríkt á milli þjóðanna og aldrei borið skugga á. Og það má ekkert verða til þess að við missum sjónar á þeim grundvallargildum sem við sem þjóð skilgreinum okkur út frá,“ segir ráðherrann.

Hann segist munu heyra aftur í stjórnvöldum á Grænlandi ef þurfa þykir.

„Vilji grænlenskra stjórnvalda er alveg skýr og það er mikilvægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert